Til stendur að afnema vinstri beygju við Hafnaveg
Til stendur að afnema vinstri beygju frá Hafnavegi inn á Reykjanesbraut en banaslys varð á þeim gatnamótum á fimmtudag í síðustu viku. Frá þessu er greint á mbl.is. Í fréttinni er haft eftir G. Pétri Matthíassyni, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, að þegar útboð var gert á hringtorginu við Fitjar hafi síðasta verkið í þeirri vinnu átt að vera að taka af vinstri beygju frá Hafnavegi út á Reykjanesbraut. Verkið hafi hins vegar tafist vegna veðurs. Ákveðið hefur verið að gera undirgöng undir Reykjanesbraut fyrir gangandi vegfarendur og er haft eftir G. Pétri í Morgunblaðinu í dag að hentugast verði að vinna að þessum verkefnum samtímis og það sem fyrst.
Í síðustu viku var stofnaður hópur á Facebook undir yfirskriftinni Stopp hingað og ekki lengra. Með stofnun hans er ætlunin er að þrýsta á stjórnvöld að flýta tvöföldun Reykjanesbrautar en ekki er gert ráð fyrir framkvæmdinni í Samgönguáætlun sem gildir til ársins 2018. Þegar hafa rúmlega 16.000 manns skráð sig í hópinn.