Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Til skoðunar að fjarlægja hraunklappir við Grindavíkurveg
Samráðshópur úr Grindavík fundaði með vegamálastjóra í gær.
Föstudagur 10. mars 2017 kl. 09:31

Til skoðunar að fjarlægja hraunklappir við Grindavíkurveg

- Flest slys vegna útafaksturs til hægri

„Við höfum komið áhyggjum okkar á framfæri og ætlum svo að láta hné fylgja kviði og funda með samgönguráðherra í næstu viku varðandi fjármagn til lagfæringa á veginum,“ segir Kristín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík. Hún ásamt fleiri fulltrúum bæjaryfirvalda og fulltrúum atvinnulífsins í bæjarfélaginu átti fund með vegamálastjóra í gærmorgun. Kristín segir fundinn hafa verið góðan og ljóst að fullur vilji sé til framkvæmda innan Vegagerðinnar en þær velti alltaf á fjárveitingum frá ríkinu. Lagfæringar á Grindavíkurvegi eru ekki á samgönguáætlun til ársins 2018.

Kristín segir ýmis rök hníga að því að ráðast hið fyrsta í lagfæringar á veginum. Meðal annars þau að Grindavíkurvegur liggi að vinsælasta ferðamannastað landsins, Bláa lóninu. Hún bendir á að ferðamönnum í janúar hafi fjölgað um 70 prósent sé miðað við janúar í fyrra. „Innviðirnir standa ekki undir þessari fjölgun. Það er slæmt að ferðamenn komi hingað til lands og séu í hættu á leið sinni á milli áfangastaða. Nú eru fleiri ferðamenn að keyra hér um yfir vetrartímann við mis góð akstursskilyrði.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samráðshópurinn fékk þær upplýsingar á fundinum að til standi að gera öryggisúttekt á Grindavíkurvegi. Flest slys verða vegna útafaksturs til hægri og því er til skoðunar að fjarlægja hraunklappir við hlið vegarins til að minnka hættu á alvarlegum meiðslum. Hópurinn fór þess á leit við Vegagerðina að merkingar verði bættar, sérstaklega við afleggjarann að Bláa lóninu þannig að ökumenn sem ekki þekkja svæðið vel geti hægt á ferðinni í tíma áður en beygt er. „Við lögðum einnig fram þá ósk að ráðist verði í kostnaðargreiningu á því að gera veginn að 2+1, bæði á 6 kílómetra kafla og alla leið. Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa þær upplýsingar undir höndum,“ segir Kristín.

Fulltrúar Grindavíkur munu svo funda með Jóni Gunnarssyni, samgönguráðherra, í næstu viku og þrýsta á um fjárveitingar til lagfæringa.