Tíðavörur í grunnskólum Reykjanesbæjar kosta 250 þúsund krónur á ári
Erindi frá ungmennaráði Reykjanesbæjar varðandi ókeypis tíðavörur í grunnskólum sveitarfélagsins var lagt fram á síðasta fundi fræðsluráðs Reykjanesbæjar. Ungmennaráð fagnar því að hugmyndin hafi verið tekin fyrir í fræðsluráði og óskar eftir að málið verði unnið í samráði við börn.
Fræðsluráð þakkar fyrir faglegar og málefnalegar ábendingar frá ungmennaráði Reykjanesbæjar í tengslum við umfjöllun ráðsins um framkvæmd hugmyndar ungmennaráðs um ókeypis tíðavörur í grunnskólum Reykjanesbæjar. Í minnisblaði ungmennaráðs til fræðsluráðs 22. nóvember 2022 er óskað eftir því að tíðavörur verði fáanlegar á tveimur einstaklingsklósettum eða á fleiri en einum stað í skólum sveitarfélagsins þar sem hægt verði að nálgast vörurnar án aðstoðar starfsmanna. Í minnisblaðinu er einnig bent á mikilvægi þess að tilrauninni verði gefin nægjanlegur tími.
„Tíðavörur verði hafðar á salerni grunnskólans í a.m.k eitt ár sama hvað kemur uppá. Dæmi eru um í öðrum stofnunum á landsvísu að eftir eitt til tvö atvik þar sem tíðavörum var dreift um alla veggi og stolið að þá var þessari þjónustu hætt. Leghöfum getur ekki verið refsað fyrir hegðunarvanda nokkurra einstaklinga.“
Fræðsluráð óskaði eftir því að sviðsstjóri fræðslusviðs greindi kostnað við verkefnið. Helgi Arnarson fræðslustjóri segir að stjórnendur skóla hafi tekið jákvætt í erindið. Sumir skólar bjóði þetta nú þegar. Gróf kostnaðaráætlun er að heildarkostnaður fyrir alla skóla á ári nemi 250.000 kr. vegna verkefnisins.
Ráðið tekur undir með ungmennaráði að mikilvægt er að unnið verði áfram með nemendum og skólastjórnendum að útfærslu hugmyndarinnar. Þegar næstu skref verða stigin í málinu verður leitað eftir umsögn ungmennaráðs.