Þyrlur, bátar og björgunarmenn í viðbragsstöðu
Um klukkan 13:00 í dag, laugardag, var Björgunarskipið Oddur V. Gíslason frá Grindavík kallað út ásamt björgunarsveitinni Þorbirni vegna vélaravana báts um 1 sjómílu frá Krísuvíkurbjargi. Báturinn sem heitir Kristbjörg HF 177 er 290 brúttótonna línubátur sem var á veiðum á svæðinu.
Um 5 mínútum eftir að útkall barst var björgunarskipið Oddur V. lagt af stað og stuttu eftir það fór björgunarhraðbáturinn Árni í Tungu af stað líka frá Grindavík.
Þar sem báturinn var tæpa eina sjómílu undan Krísuvíkurbjargi var ákveðið að kalla út Björgunarsveit Hafnarfjarðar líka þar sem þeir þekkja bjargið manna best. Þá fóru bílar og sexhjól úr Grindavík líka áleiðis með fluglínutæki ef á þeim þyrfti að halda.
Tæpri klukkustund eftir að útkallið kom voru um 20 manns komnir á bjargbrúnina ásamt því að bátarnir tveir, Oddur V. og Árni í Tungu voru komnir að skipinu. Þá voru þyrlur Landhelgisgæslunnar sestar á bjargbrúnina líka og biðu átekta.
Rétt fyrir klukkan 15 komst vél Kristbjargar HF svo í gang og gat siglt fyrir eigin vélarafli og var þá öll aðstoð afþökkuð. Að aðgerðinni komu 35 manns frá Grindavík og Hafnarfirði, segir í frétt á vef Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.
Myndir: Landhelgisgæslan.