Þyrla og björgunarskip í viðbragði vegna flugvélar í vanda
Áhafnir tveggja þyrlna Landhelgisgæslunnar auk áhafna björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Grindavík og Sandgerði voru kallaðar út laust fyrir klukkan þrjú í dag vegna einkaflugvélar sem missti afl á öðrum hreyfli vélarinnar.
Flugstjórnarmiðstöð ISAVIA greindi stjórnstöð Landhelgisgæslunnar frá málinu þegar vélin var stödd 180 sjómílur suðvestur af Reykjanesi og sagðist vinna málið á hættustigi. Viðbrögð Landhelgisgæslunnar voru samkvæmt því og var áhöfn samhæfingarmiðstöðvarinnar vegna flugatvika yfir sjó virkjuð. Vélin lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli klukkan 15:25 og var þá viðbragð þyrlusveitar og björgunarsveita afturkallað.