Þyrla flutti tvo slasaða á sjúkrahús
Tveir erlendir ferðamenn voru fluttir á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar um miðjan dag eftir bílveltu nærri gatnamótum Suðurstrandarvegar og Krýsuvíkurvegar.
Tildrög slyssins eru óljós en beita þurfti klippum til að ná ökumanni bifreiðarinnar úr bílnum.
Sjúkrabílar voru sendir á vettvang frá Grindavík, Reykjanesbæ og Hafnarfirði og tækjabíll Slökkviliðs Grindavíkur var jafnframt sendur á vettvang en hann er búinn klippum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var við æfingar á Reykjanesi og óskaði Neyðarlínan eftir aðstoð þyrlunnar. Hún fór þegar á vettvang og flutti ferðamennina á slysadeild Landspítala í Fossvogi.
Þá voru tveir farþegar úr bílnum fluttir með sjúkrabílum á slysadeild.
Ljósmyndari Víkurfrétta var á vettvangi slyssins og náði meðfylgjandi myndum.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson