Þyrla bjargaði nemendum Keilis
Nemendur í flugtengdu námi við flugakademíu Keilis þurftu að komast af í óbyggðum í gærmorgun. Að endingu kom þyrla Landhelgisgæslunnar þeim til bjargar.
Nemendunum var skipt upp í fjóra hópa og þeim komið fyrir í óbyggðum Pattersonflugvallar á Njarðvíkurheiði. Þar leystu nemendurnir verkefni undir handleiðslu kennara. M.a. þurftu þeir að búa um fótbrot, útbúa skjól, merkja svæðið sem þau voru á svo auðveldara væri að sjá það úr lofti og fleira í þeim dúr.
Nemendurnir töluðu um að verkefnið hafi verið dýrmæt reynsla og þá var það rúsína í pylsuendann að vera hífð upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar en áhöfn þyrlunnar kom og aðstoðaði við æfingu Keilis.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á æfingunni í gær.