Þúsundir starfa á Suðurnesjum að komast í höfn
Áform um byggingu álvers í Helguvík virðast nú tryggð eftir að orkusölusamningar voru endurnýjaðir milli Norðuráls og OR nú í vikunni og tryggja orku fyrir 250 þús. tonna álver. Nægur tími sé til að finna orku sem upp á vanti fyrir 360 þús. tonna álver. Þá hefur Össur Skarphéðinsson gefið út í grein sem han skrifar í Fréttablaðið í dag að fjárfestingasamningur vegna byggingar álvers í Helguvík verði staðfestur. Samkvæmt samningnum munu fimm erlendir bankar veita lán til framkvæmdanna.
Ljóst er því að þúsundir starfa munu verða til hér á Suðurnesjum á næstu árum og líklega strax í vor miðað við gang mála síðustu daga og vikur.
Forsendur fyrir byggingu álversins í Helguvík breyttust við hrun bankanna sem voru búnir að lofa lánveitingum. Á síðustu mánuðum hefur verið unnið að framhaldi málsins m.a. verið lagt til að álverið verði stækkað í 360 þús. tonn og byggt í fjórum 90 þús. tonna áföngum.
Ráðherra segir að framkvæmdir við Helguvík muni skapa allt að 2500 störf á byggingartímanum.
Í fullreistu álveri muni 650 manns starfa en afleidd störf verða ríflega 1000.