Þúsundir söluskammta af fíkniefnum haldlagðir í húsleitum
Lögreglan á Suðurnesjum haldlagði gríðarlega mikið magn fíkniefna í húsleit sem gerð var nýverið í umdæminu. Um var að ræða kannabisefni og var lagt hald á þúsundir söluskammta. Að auki var umfangsmikil kannabisræktun stöðvuð á sama stað.
Grunur leikur á að þarna hafi farið fram framleiðsla, dreifing og sala á fíkniefnum. Einn var handtekinn í þágu rannsóknar málsins og færður til skýrslutöku á lögreglustöð. Söluandvirði fíkniefnanna er talið vera á verðbilinu 12-14 milljónir.
Í annarri húsleit sem gerð var í umdæminu á svipuðum tíma var annar einstaklingur handtekinn eftir að talsvert magn af amfetamíni og kannabisefnum fundust í fórum hans. Þá haldlagði lögregla kylfu, macebrúsa og fjármuni á staðnum.
Auk síðarnefnda mannsins var annar aðili handtekinn á staðnum og var hann þar í þeim erindagjörðum að kaupa fíkniefni.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.