Þúsundir bæjarbúa skrifuðu undir áskorunina
-Brot á lögum að vísa barnshafandi konum til Reykjavíkur vegna sumarlokana
Aðstandendur áskorunar, um að ljósmæðravakt Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verði opin allt árið um kring, afhentu Halldóri Jónssyni, forstjóra HSS, lista með rúmlega 2.500 undirskriftum íbúa svæðisins fyrr í vikunni. Árskoruninni er beint til HSS og Embættis landlæknis.
Í áskoruninni kemur fram að sumarlokun ljósmæðravaktarinnar valdi barnshafandi konum og fjölskyldum þeirra óöryggi, óþægindum og jafnvel tekjuskerðingu. Það sé ólíðandi í svo stóru heilbrigðisumdæmi og það að vísa barnshafandi konum á svæðinu til Reykjavíkur vegna sumarlokana sé brot á lögum um heilbrigðisþjónustu.
„Við erum mjög ánægð með móttökurnar sem við fengum á HSS og jákvætt viðmót stjórnenda. Við vonumst eftir því að sjá góðar breytingar á næsta ári og að þessi þrýstingur skili sér í heilsársopnun á fæðingardeild HSS,“ segir Berglind Ásgeirsdóttir, sem er í forsvari fyrir áskorunina, í samtali við Víkurfréttir.
Þá segir Halldór fullan skilning ríkja í framkvæmdastjórn HSS gagnvart umræddri kröfu og að við gerð rekstaráætlunar HSS fyrir komandi ár hafi verið lögð fram beiðni um fjárveitingu til þess að þetta verði að möguleika. „Ef það fæst í gegn í fjárlögum og okkur gengur vel að fá starfsfólk til starfa er allur vilji hjá okkur að skerða ekki þjónustu ljósmæðravaktarinnar.“
Berglind vill hvetja íbúa til að skrá sig í stuðningshóp ljósmæðravaktar HSS á Facebook en þar verður haldið áfram að skoða hvort og hvað hópurinn geri næst.
Halldór Jónsson og Berglind Ásgeirsdóttir.