Þúsundir á sjómannahátíð í Grindavík
Þúsundir Suðurnesjamanna og annarra gesta hafa lagt leið sína á sjómanna- og fjölskylduhátíðina Sjóarann Síkáta sem haldin hefur verið í Grindavík í dag og tvo síðustu daga. Skemmtidagskrá hefur verið í boði á stóru svæði. Fjöldi heiðrana hefur átt sér stað og hugaðir einstaklingar hafa keppt í X faktor, sem er fjölþrautakeppni í anda Fear Factor þar sem fyrsta þraut var að drekka mjög kryddaðan drykk með hráum ýsubitum og tuttugu dauðum fiskiflugum. Þá tók við flekahlaup, koddaslagur og ýmislegt annað.
Börnum var boðið upp á andlitsmálun og brúðubíllinn skemmti við björgunarstöðina. Þá var sjómannakaffi í Festi og ýmislegt annað sem ekki verður talið upp hér í þessari stuttu frásögn. Það er mál manna að vel hafi tekist til en Sjóarinn Síkáti er án efa ein stærsta sjómanna- og fjölskylduhátíð landsins þennan fyrsta sunnudag í júní.