Þuríður Halldórsdóttir með 58 tonn
Gæftir voru góðar fyrri part vikunnar hjá Grindavíkurbátum og aflabrögð þokkaleg á línu hjá minni bátum. Alls var 325 tonnum af bolfiski landað í Grindavík og 540 tonnum af síld á tímabilinu 5.-11. nóvember og skiptist það eftir veiðarfærum þannig að togskipin komu með 170 tonn og var Þuríður Halldórsdóttir með mestan afla þeirra, 58 tonn.
Átján línubátar lönduðu 176 tonnum í vikunni og af þeim var aðeins einn útilegubátur, Melavík sem landaði 55 tonnum. Af stærri dagróðrabátum voru Reynir og Þorsteinn Gíslason með 13 tonn hvor í þremur sjóferðurm en af minni dagróðrabátum var Víkingur með mestan afla 9,8 tonn í fjórum róðrum.
Einn dragnótabátur landaði 8,2 tonnum í vikunni og tveir bátar lönduðu síld, Oddeyrin 407 tonnum og Júpiter 141 tonni. Afli tíu handfærabáta var samtals 8,4 tonn og var Brynjar með mestan afla 3,2 tonn í þremur veiðiferðum. Sex litlir netabátar lönduðu 12,2 tonnum og var Maron með mestan afla 3,8 tonn í fjórum sjóferðum.