„Þurfum að koma Grindavíkurvegi á Samgönguáætlun“
„Ég held ég geti fullyrt það að annar hver Grindvíkingur hafi farið út af veginum,“ segir Kristín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, en hún er einnig í samráðshópi um bætt öryggi Grindavíkurvegs. Í samtali við Víkurfréttir segist Kristín vel geta trúað því að Grindavíkurvegi verði lokað í mótmælaskyni. Fólk sem keyri veginn reglulega sé orðið reitt og vilji að eitthvað sé gert.
„Það besta sem yrði gert væri að tvöfalda veginn og lýsa hann upp. En ég held það sé ekki raunhæft, það er ekki það sem við erum að fara að fá. Ég held við gætum byrjað á því að setja einhverjar varúðarmerkingar, þannig að fólk átti sig á því að það sé að keyra á mjög hættulegum vegi.“ Þá segir Kristín einnig að aðskilja þurfi akstursstefnurnar. Bílvelturnar þrjár, sem allar áttu sér stað á veginum í síðustu viku, hafi endað þannig að bifreiðarnar fóru út af veginum vinstra megin og hefðu þær fengið bíl úr gagnstæðri átt framan á sig hefði það geta endað mun verr.
„Grindavíkurvegur er ekki á Samgönguáætlun og við þurfum að koma honum þangað sem fyrst. Við vitum að það kostar 1.400 milljónir að aðskilja akstursstefnurnar og breikka veginn. En við erum líka búin að leggja það til að byrjað verði á þessum hættulegustu köflum. Við þurfum að byrja einhvers staðar.“
Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Víkurfrétta kemur fram að á næstu dögum verði sett upp merki á Grindavíkurvegi sem banna framúrakstur þar sem við á, til samræmis við miðlínur sem þar eru en sjást ef til vill illa að vetrarlagi. Þá kemur einnig fram að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það að lækka leyfilegan hámarkshraða. Vandamálið gæti frekar stafað af því að menn virði ekki 90 kílómetra hámarkshraðann sem sé á veginum.
Kristín segir ástæðu framúrakstursins vera sú að fólk keyri oft of hægt á veginum. „Við fáum líka hópa frá flugstöðinni sem keyra beint í Bláa Lónið, fólk sem hefur kannski aldrei áður keyrt í hálku og þetta eru fyrstu kílómetrarnir.“
Þá segir hún einnig að ökumenn taki upp á því annað slagið að stoppa á miðjum vegi. „Fólk stoppar raunverulega bara á akreininni, það fer ekki einu sinni út í kant. Það vantar útskot á veginum. Fólk áttar sig ekki á því að það er 90 km hraði þarna.“
Kristín skilur að fólk sé orðið þreytt á aðgerðarleysi á veginum en hún heyrir það reglulega að raunverulegur vilji sé til þess að loka veginum. „Ég hef líka heyrt einhverja segja að þetta muni ekki skila neinu, að það komi bara verst niður á okkur sjálfum. En þá opnar fólk kannski eyrun. Við höfum talað við Vegagerðina, heyrt í ráðherrum, við erum búin að gera þetta allt saman. Það eru allir með okkur í liði en við þurfum einhvern veginn að fara að láta þetta gerast.“