Þurfum að greina vanda heimilanna
„Mín fyrstu viðbrögð þegar ég sá niðurstöðu kosninganna voru gleði og stolt en líka vantrú þar sem að ég hafði fullkomlega sætt mig við það að vera ekki á leið á þing. Ég fylgdist með talningunni í sjónvarpinu og þegar að fyrstu tölur birtust fannst mér það ljóst að þetta myndi ekki ganga. Ég fór að sofa um hálf sexleytið um morguninn dauðþreyttur og þess fullviss að þetta væri búið en klukkutíma seinna hringdi síminn og var bróðir minn á hinum enda línunnar. Hann óskaði mér til hamingju með þingmannssætið og taldi ég í fyrstu að hann væri að fíflast í mér en þegar ég kveikti á sjónvarpinu sá ég að svo var ekki. Það er nú erfitt að segja nákvæmlega hvernig mér leið fyrst en síðan fylltist ég gleði og stolti yfir því að ná takmarki mínu að verða þingmaður fyrir Suðurkjördæmi og ekki síst sem fulltrúi Suðurnesjamanna. Það jók síðan enn á gleðina sú staðreynd að félagar mínir Páll Jóhann og Vilhjálmur Árna voru líka orðnir þingmenn og að heilir 7 þingmenn koma frá Suðurnesjum,“ segir Páll Valur Björnsson, sem skipar fyrsta sæti Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi. Páll Valur hlaut uppbótarþingsætið í kjördæminu á lokametrum talningar úr kjörkössunum en fyrr um nóttina höfðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna vermt uppbótarþingmannssætið um stund.
- Hvað á að vera það fyrsta sem þið sem hópur þingmanna frá Suðurnesjum ættuð að hafa sem fyrsta verk fyrir Suðurnes á Alþingi?
„Það er ljóst að okkar bíður mikið og verðugt verkefni á þingi við að koma mikilvægum málum af stað fyrir svæðið og vonandi ber okkur gæfa til þess að vinna saman af heilildum Suðurnesjum og kjördæminu til heilla. Fyrsta verkefni ætti að vera að greina vanda heimilanna og aðstoða þá sem verst eru settir og svo liggur það ljóst fyrir að við verðum að ná niður því atvinnuleysi sem ríkt hefur hér á svæðinu alltof lengi. Til þess eru margar leiðir og það er okkar hlutverk sem kjörnir hafa verið inn á þing að finna þær leiðir og hlusta á sveitarstjórnarmenn og alla hagsmunaaðila á svæðinu og hvernig þeir sjá fyrir sér næstu skref og hvernig við getum forgangsraðað hlutunum,“ segir Páll Valur í samtali við Víkurfréttir.