Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 27. febrúar 2003 kl. 14:45

„Þurfum að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum“ – segir Bjarni Pálsson stjórnarformaður Keflavíkurverktaka

Keflavíkurverktakar hafa boðið starfsmönnum sínum nýja vinnustaðasamninga eins og áður hefur komið fram. Bjarni Pálsson stjórnarformaður og aðaleigandi Keflavíkurverktaka segir ástæðuna fyrir þessu vera að á árunum 1999 til 2003 hafi orðið umbylting á rekstraumhverfi fyrirtækja á varnasvæðinu á Keflavíkurflugvelli. „Undanfarið ár hefur félagið verið í mikilli endurskipulagningu og kraftmikilli sókn inn á íslenska verktakamarkaðinn með góðum árangri. Breytt samkeppnisumhverfi hefur kallað á lækkun allra kostnaðarliða sem hefur skilað ágætis árangri og tryggt samkeppnisstöðu félagsins“, segir Bjarni í samtali við Víkurfréttir.Lokaliður í endurskipulagningu fyrirtækisins er aðlögun launaliða að breyttum aðstæðum. „Vinna fyrir varnarliðið er ekki lengur sá burðarás í rekstri félagsins eins og áður. Félagið er í ýmsum stórum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og er verkefnastaðan mjög góð utan vallar. Mikil tækifæri er nú að finna á íslenska verktakamarkaðinum og nægir þar að nefna samstarf Keflavíkurverktaka við erlenda verktaka vegna framkvæmda á Austurlandi. Styrkur og þekking félagsins nýtist vel á þessum markaði svo fremi sem félagið gætir þess að vera samkeppnishæft “, segir Bjarni.

Bjarni segir að útboð á öllum verkefnum Varnarliðsins kalli á það að félagið bregðist við svo að það geti boðið í verk og haft raunhæfa möguleika á því að fá útboðsverk. Frá því um áramótin 2001-2002 hafa orðið miklar breytingar á rekstrarskilyrðum fyrirtækisins. Samningsverkum á varnarsvæðinu er lokið og aðlögun sú er fyrirtækið átti að hafa til 2004 var felld úr gildi.
„Við verðum að bera okkar kostnað við samkeppnisaðilana til þess að eiga möguleika á auknum verkefnum. Að undanförnu hefur markvisst verið unnið að því í samráði við starfsmenn að finna leiðir til þess að draga úr launakostnaði því félagið hefur undanfarna mánuði dregið úr öllum kostnaðarliðum öðrum en launaliðum. Allir starfsmenn félagsins verða að horfast í augu við þá staðreynd að verði ekki náð fram lækkun kostnaðar er félagið ekki samkeppnishæft á þessum markaði og mun því hverfa af honum og leita út fyrir Suðurnes um verkefni“, segir Bjarni að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024