Þurfti að takast á við mótlæti fyrsta göngudaginn
Vignir Arnarson, sem er 43 ára gamall Suðurnesjamaður, lagði á mánudaginn upp í 30 daga gönguferð þvert yfir Noreg. Tilgangur ferðarinnar er að safna styrktarfé yfir UNG BLIND sem er deild innan Blindrafélagsins fyrir blind og sjónskert börn og unglinga. Dóttir hans, Jenny´ Guðbjörg, sem búsett er í Reykjanesbæ, greindist með ólæknandi augnsjúkdóm fyrir tveimur árum og síðan þá hefur hún notið einstakrar hjálpar frá Blindrafélaginu.
Gönguferðin er sérstök að því leyti að Vignir ætlar einungis að lifa á náttúrunni í þá 30 daga sem gangan tekur. Nokkrir hafa labbað þessa leið áður en ekki með þessum hætti. Fyrsti dagurinn byrjaði reyndar ekki vel við fæðuöflun því þegar Vignir ætlaði að renna fyrir fisk í því sem átti að vera veiðivatn samkvæmt korti, kom hann að mýrarpolli. Hann lagði því vatnslaus og matarlaus í gönguna á öðrum degi og þurfti að ganga nokkra kílómetra uns hann komst í vatn. Til að nærast tók hann á sig krók niður að strönd þar sem hann veiddi þorsk í matinn.
Vignir hóf gönguna á Bogsnesi við Tysfjord í Noregi og stefnir til Pitea á austurströnd Svíþjóðar, samtals um 500 km í loftlínu. Á vefnum http://www.vignirarnarson.com/ er hægt að fylgjast með Vigni á gönguferðinni.
„Tilgangur ferðarinnar er að safna áheitum fyrir barnastarf Blindrafélagsins og einnig til að sýna fram á hversu þægilegan og í rauninni einfaldan dag við höfum sem eigum að teljast heilbrigð. Ég er ekkert öðruvísi en flestir aðrir með það að ég hef eiginlega tekið lífinu, heilsunni, heilsu barna minna og öðru þess háttar sem sjálfsögðum hlut, þar til fyrir tveimur árum er dóttir mín greindist með ólæknandi augnsjúkdóm og síðan þegar sonur minn fjögurra og hálfsárs lést í fyrra. Þegar slíkir hlutir gerast þá er oft sem maður vakni upp við vondan draum og átti sig á því að maður geti ekki tekið öllu sem sjálfsögðum hlut,“ segir Vignir um tilgang ferðarinnar.
Hægt að hringja í eftirfarandi númer til að styrkja barnastarf Blindrafélagsins:
904 1000 (1.000 kr)
904 2000 (2.000 kr)
904 3000 (3.000 kr)
Einnig hefur sérstakur reikningur hjá Blindrafélaginu verið settur upp fyrir þá sem vilja sýna Vigni og Blindrafélaginu stuðning.
Reikningsnúmer: 115-26-47015
Kennitala: 470169-2149
Reikningseigandi: Blindrafélagið