Þurfa að greiða hærri laun til að halda starfsfólki
- Aldrei hafa færri í VSFK verið án atvinnu
Nokkuð hefur verið í umræðunni að undanförnu að fyrirtæki þurfi að bregða á það ráð að fá starfsfólk frá útlöndum, svo mikið sé að gera framundan. Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, segir það oft lendinguna þegar fyrirtæki vilji ekki greiða þau laun sem Íslendingar sætta sig við. Framundan sé mikill vöxtur á Keflavíkurflugvelli og í Helguvík og brýnt að allar vinnufúsar hendur á svæðinu komist þangað í vinnu. „Erlent verkafólk kemur oft frá svæðum þar sem lífsbaráttan er erfið og launin lág. Hér á landi býðst þessu fólki ekkert annað en taxtinn og punktur. Stundum fær fólk jafnvel ekki taxtann. Á dögunum komst upp um vinnuveitanda sem var með 20 erlenda verkamenn í vinnu og greiddi þeim 60.000 krónur í mánaðalaun fyrir fulla vinnu. Einmitt af því að fólkið kemur frá láglaunalöndum hefur það ekkert að athuga við þessi laun. Það er þó alveg á hreinu að það á að fara eftir íslenskum kjarasamningum hér á Íslandi, greiða skatta og gjöld til lífeyrissjóða og stéttarfélaga.“
Þegar upp kemst um slík tilvik fá atvinnurekendur aðvörun og tækifæri til að fara eftir settum reglum. Að sögn Kristjáns er málunum svo fylgt fast eftir. „Það var töluvert um svona tilvik í ferðabransanum síðasta sumar. Yfirleitt eru þessir atvinnurekendur reynslulitlir og ekki í neinum samtökum, eins og Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum atvinnulífsins.“
Bjart framundan
„Ég er mjög bjartsýnn. Það eru fleiri komnir með fulla vinnu og margir hafa kost á yfirvinnu,“ segir Kristján um horfur í atvinnumálum á Suðurnesjum. Hann segir allar tölur sýna það sama; að bjart sé framundan. „Launin eru aðeins byrjuð að þrýstast upp enda er það svar vinnumarkaðarins við þenslu. Atvinnurekendur eru að átta sig á því að þeir þurfa að borga fólkinu sínu betri laun og meira en blásvartan taxtann, ætli þeir að halda því. Núna heyri ég oft dæmi um 20 til 30 prósent hærri laun en taxti segir til um. Þetta er svo sem ekkert nýtt, heldur það sem hefur alltaf gerst í þenslu á Íslandi.“
Kristján hefur verið formaður VSFK í 24 ár og segir hann alla tíð hafa verið töluvert atvinnuleysi á svæðinu. Þegar fiskvinnsla hafði meira vægi hafi árstíðabundnar sveiflur haft töluverð áhrif. Þá var lítið að gera í desember og janúar. Nú er hráefnisöflun í fiskvinnslu jafnari og því minni sveiflur.
Í dag eru um hundrað félagar í VSFK án atvinnu og hafa þeir aldrei verið svo fáir síðan Kristján hóf störf hjá félaginu. Hann segir marga sem áður voru án vinnu hafa fengið störf á flugvellinum, enda sé hann stóriðja Suðurnesja. „Svo hefur sprottið upp hér fjöldinn allur af bílaleigum og gistihúsum og margir okkar félagsmanna hafa fengið vinnu tengda ferðaiðnaði.“ Um ástæður þess að þrátt fyrir gott ástand á vinnumarkaði séu um hundrað manns í félaginu án atvinnu segir hann þær af ýmsum toga, meðal annars langvarandi félagsleg vandamál hjá hluta hópsins. „Sveitarfélögin hafa ekki úr miklu að moða og því er ekki hægt að fara í verkefni til að útvega vinnu við hæfi allra.“ Hann segir alvarlega fjárhagsstöðu sumra sveitarfélaganna á Suðurnesjum einnig hafa þau áhrif að fólk veigri sér við að flytja hingað, þrátt fyrir góðar horfum í atvinnumálum. „Því eru margir sem kjósa að sækja vinnu hingað og keyra Reykjanesbrautina daglega en eru hikandi við að flytja. Það þarf að koma sveitarfélögunum á beinu brautina og við íbúarnir þurfum líka að vera dugleg að tala á jákvæðan hátt um svæðið okkar því hérna er vænlegt að búa.“
Kristján segir að á árum áður hafi hlutfall hlutastarfa verið það hæsta á landinu í Reykjanesbæ og því sé ánægjulegt að fleiri hafi nú kost á fullu starfi. „Það eru sveitarfélögin sem hafa flesta hlutastarfsmenn. Það er mjög erfitt að draga fram lífið á hlutastarfi og hafa ekkert annað til viðbótar. Hér áður fyrr var mikið um að fólk væri í 70 til 80 prósent vinnu, til dæmis hjá hinu opinbera. Það er sá hópur sem ég finn mest til með. Þetta fólk er ekki aðeins á lægstu laununum, heldur líka í hlutastarfi og reynir að draga fram lífið á þeim launum.“
Ekki slæmt að vinna í fiski
Að mati Kristjáns náðust góðir samningar fyrir fiskverkafólk sem tóku gildi í maí síðastliðnum. Hann segir afkomu í fiski almennt góða og því hafi fyrirtækin borð fyrir báru til að gera vel við starfsfólk sitt. „Gamla mýtan um að fólk sem fari ekki í skóla endi í fiski og að það sé slæmt, á ekki lengur við. Það er alveg ágætt að vinna í fiski. Til dæmis bað afastrákurinn minn mig í vor að hjálpa sér að finna vinnu í fiski. Hann grætti mig næstum því, ég var svo glaður að finna loksins einhvern sem vill vinna í fiski,“ segir Kristján að lokum.