Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Þungt í mönnum hljóðið og enginn veit hvert framhaldið verður“
Þriðjudagur 28. október 2003 kl. 22:17

„Þungt í mönnum hljóðið og enginn veit hvert framhaldið verður“

-segir Páll Árnason sem sagt var upp störfum hjá Varnarliðinu í dag.

 

„Maður finnur að þetta er bara fyrsta skóflustungan í þessu ferli og það er í sjálfu sér ágætt að fara í fyrsta holli,“ segir Páll Árnason fyrrverandi starfsmaður Varnarliðsins, en hann er einn 90 starfsmanna sem fengu uppsagnarbréf í kvöld. Páll býr ásamt eiginkonu sinni Hörpu Jóhannsdóttur í Reykjanesbæ en þau eiga þrjú börn, auk þess sem barnabarn þeirra er á heimilinu. „Ég er eina fyrirvinna heimilisins því konan mín er öryrki. Maður er ennþá að reyna að kyngja því að manni hafi verið sagt upp og þetta er ekkert smá sjokk fyrir fjölskylduna. Ég tala nú ekki um hve mikil áhrif þetta hefur á þær skuldbindingar sem maður hefur gert.“

 

Páll hefur unnið hjá Varnarliðinu síðustu 6 ár, fyrst á véladeild og síðustu 2 árin hefur hann starfað á lagerdeild Varnarliðsins. Á fimmtudaginn í síðustu viku ræddi verkstjóri Páls við hann og sagði að hann væri hræddur um að hann yrði fyrstur til að fara, en verkstjórinn var þá nýkominn af fundi þar sem uppsagnirnar voru kynntar. „Ég neitaði að trúa því, enda með lengsta starfsaldurinn í deildinni minni.“

 

Páll segir að andrúmsloftið hafi verið mjög þvingað innan Varnarliðsins í gær, eftir að fréttaflutningur af málinu hófst. „Það vissi í raun engin neitt og allir gátu búist við því að fá uppsagnarbréf. Það er svo sannarlega þungt í mönnum hljóðið og það veit í raun enginn hvert framhaldið verður.“

 

Páll er mjög ósáttur við uppsögnina og vill helst ekki þurfa að mæta til vinnu á morgun. Hann á inni 2 vikna sumarfrí sem hann ætlar að taka út frá og með morgundeginum. „Ég ætla að fara að sækja um vinnu og ætli ég byrji ekki á að sækja um vinnu við Kárahnjúka. Ég hef enga trú á því að ég fái vinnu hér á Suðurnesjum.“

 

Páll gagnrýnir mjög hvernig staðið var að uppsögnunum. „Það er náttúrulega fáránlegt að fólk frétti það í fjölmiðlum að það sé að missa vinnuna. Ég tala nú ekki um þegar maður les það einnig í fjölmiðlum að stjórnvöld hafi vitað af þessum uppsögnum í byrjun síðustu viku og ákveðið að gera ekki neitt. Það finnst mér vera skuggalegt og til skammar.“

 

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Páll með barnabarni sínu, Kolbrúnu Hörpu 15 mánaða á heimili þeirra í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024