Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þróunarverkefni hjá MSS
Fimmtudagur 22. nóvember 2012 kl. 09:43

Þróunarverkefni hjá MSS


Lög um framhaldsfræðslu eru ekki gömul en óhætt er að segja að mikil þróun og gerjun sé í geiranum. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum tekur virkan þátt í allri þróun og hefur verið öflug í að koma með nýjungar. Að sögn Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumanns MSS hefur Fræðslusjóður og Menntamálaráðuneytið veitt nokkra styrki til MSS til að þróa áfram nám og koma með nýjungar. Vinna við öll þessi verkefni er hafin og er áætlað að þeim ljúki á fyrri hluta næsta árs. Þeir sem hafa áhuga á að fræðast meira um þessi verkefni er bent á að hafa samband við verkefnastjóra viðkomandi verkefnis.


Greining á menntunarþörfum á Suðurnesjum næstu 10 árin


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið greiningarinnar er að komast að þekkingarþörf atvinnulífs á Suðurnesjum til næstu 10 ára.  Greina  á núverandi menntun þeirra sem eru á vinnumarkaði  eftir námsgráðum, hvert sé námsframboð sem boðið er upp á á Suðurnesjum og hvernig eigi að brúa þekkingarbilið á milli þarfa atvinnulífs og vinnuafls. Verkefnastjóri er Kristinn Jakobsson.


Hljóðtækninám og kvikmyndanám


MSS fékk styrk í tvö verkefni sem miða að því að þróa áfram nám sem hófst hjá MSS árið 2011 í hljóðtækni og kvikmyndagerð. Markmið þróunarverkefnisins er að halda áfram þróun á námsframboði í hljóðtækni og kvikmyndagerð í framhaldsfræðslu og skapa tengingu á milli skólastiga þannig að nemandinn eigi greiða leið úr framhaldsfræðslunni inn í formlega skólakerfið eða í nám sem veitir honum réttindi. Samstarfsaðilar eru  Kvikmyndaskóli Íslands og Tækniskólinn. Gert er ráð fyrir að prufukennsla verði á vorönn 2013. Verkefnastjóri er Hjörleifur Þór Hannesson.


Tækninám


Markmið verkefnisins er að efla námsáhuga, hvetja einstaklinga til að skoða tækninám og gera tækninám að raunhæfum möguleika fyrir einstaklinga með litla formlega skólagöngu að baki. Útbúin verður stutt námsleið þar sem tekið verður á þessum þáttum. Áætlað er að prufukeyra námskeiðið á vorönn 2013 í samvinnu við Vinnumálastofnun. Áhugasamir geta haft samband við verkefnastjóra verkefnisins sem er Hjörleifur Þór Hannesson.


Greining á menntunarþörfum fatlaðs fólks


Markmið verkefnisins er að greina markhóp fullorðinsfræðslu fatlaðra á Suðurnesjum. Mikilvægt er að skapa fötluðu fólki aðstöðu til sí- og endurmenntunar til að uppfylla þarfir þess og væntingar til náms. Því er mikilvægt að fyrir liggi fjöldi í markhóp, tegund fötlunar og væntingar og löngun í nám. Einnig verða skoðaðar þær leiðir í almennu námi sem fatlaðir geti nýtt sér. Samstarfsaðili er Fjölmennt og verkefnastjóri  er Jenný Magnúsdóttir.


Virkjum brottfallsnemendur


Hér á Suðurnesjum er mikið brottfall ungmenna úr framhaldsskólum og hefur verið mikið atvinnuleysi á svæðinu sem verður þess valdandi að þessi hópur hefur ekki haldið sér í mikilli virkni og jafnvel koðnað niður.  Helsta markmið verkefnisins er að aðstoða ungt fólk á aldrinum 18 – 25 ára að fá áhuga á að halda áfram í námi og/eða vinnu.  
Markmiðið með náminu er að:
• Koma ungmennum í virkni í samfélaginu.  
• Efla þau í ákvarðanatöku um eigið líf.  
• Hjálpa þeim að sjá tilganginn með menntun og starfsframa.

MSS er með ýmsa samstarfsaðila í þessu verkefni, s.s. Vinnumálastofnun, Atvinnutorg og félagsþjónustu sveitarfélaganna. Verkefnastjórar eru Jenný Magnúsdóttir og Ragnheiður Eyjólfsdóttir.