Þróttur styrkir Héðin Mána í næsta heimaleik
Allur aðgangseyrir á næsta heimaleik Þróttar rennur til Héðins Mána Sigurðssonar, en fyrir nokkrum mánuðum síðan greindist hann með þriðja stigs krabbamein í höfði. Héðinn Máni er 18 ára gamall en síðustu mánuði hefur hann leyft landsmönnum að fylgjast með krabbameinsmeðferðinni á samskiptamiðlinum Snapchat undir nafninu heddimani.
Knattspyrnudeild Þróttar mun einnig senda fjöldapóst á styrktaraðila deildarinnar og hvetja þá til að leggja söfnunni lið. Leikurinn verður á móti Kára, föstudaginn 28. júlí kl. 20, en miðasalan opnar kl. 19 við Vogabæjarvöll. Þá verður einnig hægt að setja í frjáls framlög í bauk á staðnum.
Á Facebook síðu Þróttar eru stuðningsmenn liðsins hvattir til að leggja inn á styrktarreikninginn 142-05-000590, kt. 640212-0390, komist þeir ekki á völlinn. Þá er einnig beðið um að láta útskýringuna „Héðinn“ fylgja með greiðslunni.