Þrotlaus barátta fyrir atvinnuuppbyggingu er að skila árangri - segir í bókun meirihluta Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar
„Forsendur jákvæðrar þróunar í fjármálum Reykjanesbæjar eru að þrotlaus barátta undanfarinna ára fyrir atvinnuuppbyggingu sé að skila árangri með auknum tekjum til bæjarfélagsins. Fyrst og fremst verða það þó íbúar sem njóta þess í auknum störfum og auknum tekjum,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri í bókun sjálfstæðismanna á fundi Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær. Til umfjöllunar var Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2010 – síðari umræða.
„Gert er ráð fyrir að skatttekjur án jöfnunarsjóðs aukist á árinu um 700 milljónir kr. vegna nýrra atvinnuverkefna. Með öflugri atvinnuuppbyggingu mun nú Reykjanesbær ná meðaltalstekjum sveitarfélaga á næstu árum. Hér er um að ræða fjölþætt verkefni með góðu starfsöryggi og góðum tekjum fyrir karla og konur, s.s. í ferðaþjónustu, heilsuverkefni að Ásbrú, álveri í Helguvík, kísilveri, gagnaveri og flugþjónustu, svo stærstu verkefni séu nefnd.
Þar sem tafir hafa orðið á mörgum stórum verkefnum, verða tekjur af þeim lægri á þessu ári, en vænta mátti. Engu að síður skapa þau stórbætta fjárhagsstöðu bæjarins á þessu ári.
Gert er ráð fyrir að eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs á árinu 2010 verði 39,9% en eiginfjárhlutfall samstæðu 23,3%. Eignir bæjarsjóðs á hvern íbúa nema 1639 milljónum kr. en skuldir 985 milljónum kr.
Vandi Reykjanesbæjar undanfarin ár hefur verið fólginn í lágum skatttekjum en bilið sem var á milli landsmeðaltals og Reykjanesbæjar jókst við brotthvarf Varnarliðsins í lok árs 2006 og hefur fremur aukist síðan. Árið 2008 munaði um 900 milljónum kr. á að skatttekjur Reykjanesbæjar, með jöfnunarsjóðsframlaginu, næðu landsmeðaltali. Þessu hefur verið mætt með hagræðingu í rekstri. Síðustu samanburðartölur frá 2008 sýna að launaútgjöld á íbúa, vegna þjónustu Reykjanesbæjar eru þau lægstu á meðal tíu stærstu sveitarfélaganna, en engu að síður var ánægja með þjónustu á því ári metin einna hæst hjá Reykjanesbæ. Í þessari fjárhagsáætlun er lögð áhersla á að verja grunnþjónustu og tryggja að Reykjanesbær verði í fremstu röð bæjarfélaga í þjónustu við íbúa, með áherslu á vel launuð störf og þjónustu við börn og barnafjölskyldur“.
Undirbókunina skrifuðu bæjarfulltrúarnir: Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Steinþór Jónsson, Sigríður J. Jóhannesdóttir, Þorsteinn Erlingsson, Garðar K. Vilhjálmsson, Björk Guðjónsdóttir.
Mynd frá bæjarstjórnarfundinum í gær. Árni Sigfússon, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðismanna í ræðustól. VF-mynd/pket.