Þröngt á þingi í Helguvíkurhöfn
– Aukinni flugumferð um Keflavíkurflugvöll fylgir aukning í komu skipa með flugvélaeldsneyti
Það er þröngt á þingi í Helguvíkurhöfn þessa stundina. Þar eru nú samtímis bæði flutningaskip að koma með byggingarefni fyrir kísilver United Silicon og þá var að leggjast að bryggju ríflega 180 metra langt eldsneytisflutningaskip sem er að koma með flugvélaeldsneyti fyrir Keflavíkurflugvöll.
Ein af birtingamyndum þess að mikil aukning hefur verið í flugumferð um Keflavíkurflugvöll er að nú eru komur eldsneytisflutningaskipa tíðari í Helguvíkurhöfn.
Skipið sem kom nú áðan heitir Vendome Street og er 183 metra langt og flytur 35.000 tonn af flugvélaeldsneyti sem verður dælt á tanka bæði í Helguvík og á Keflavíkurflugvelli
Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, tók á móti skipinu í dag og hann fagnar aukinni umferð um Helguvíkurhöfn enda þýðir svona skipakoma talsverðar tekjur í kassann fyrir höfnina. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að bara hafnargjöld af svona skipakomu séu vel á aðra milljón króna og þá eiga eftir að leggjast vörugjöld á farminn sem er landað.
Halldór sagði í samtali við Víkurfréttir að nú væri staðan sú að það væri þröngt á þingi í höfninni. Nokkrum mínútum áður en olíuskipið kom í höfn yfirgaf grænlenskt fjölveiðiskip höfnina og þá er verið að skipa upp úr flutningaskipi sem kom með byggingarefni fyrir kísilver United Silicon.
Þörf er orðin fyrir lengri viðlegukanta í höfninni vegna kísilveranna, bæði fyrir aðföng og útflutning. Þá má búast við tíðari komum olíuskipa vegna aukinnar flugumferðar til og frá Keflavíkurflugvelli.
Þá koma olíuskip einnig orðið oftar við í Helguvík á leið sinni frá Suður-Ameríku til Noregs til að létta á sér fyrir siglingu inn þröngan Oslóarfjörð á leið með eldsneyti sem m.a. er notað á Gardemoen-flugvelli.
Olíuskipið sem nú er í Helguvík kom hingað frá Venesúela og verður farmurinn, um 35.000 tonn af flugvélaeldsneyti, allur settur á tanka í Helguvík og á Keflavíkurflugvelli.