Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þróar nýja gerð heilsukodda
Föstudagur 2. janúar 2009 kl. 10:42

Þróar nýja gerð heilsukodda



Hulda Sveinsdóttir í Njarðvík hefur nýlega hlotið tvenna styrki til þróunar á nýrri gerð heilsu- og sjúkrakodda sem fengið hefur nafnið Keilir.
Hulda hlaut annars vegar styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í tengslum við verkefnið Átak til nýsköpunar og hins vegar frá Vinnmálastofnun í tengslum við sérstakt verkefni undir heitinu Atvinnumál kvenna en 50 verkefni voru valin úr 246 hugmyndum. Samtals nema styrkirnir 1,1 milljón króna.

Að sögn Huldu er koddinn Keilir nýnæmi á markaðnum og er sérstaða hans einkum fólgin í að mynda stuðning undir höfuð og sitt hvoru megin við það.
„Þessir eiginleikar eru mikilvægir fyrir þá sem þjást af stoðkerfiseinkennum frá hálsi og herðasvæði og getur átt mikilvægan þátt í því að þessir einstaklingar nái góðum nætursvefni.  Stuðningurinn sitt hvoru megin eru kallaðar keilur sem eru færanlegar eftir þörfum og stærð höfuðs - koddinn dregur nafnið sitt þaðan.
Keilir er hugsaður sem viðbót við kodda sem einstaklingur sefur með nú þegar en einnig er hægt að nota Keili einan og sér,“ sagði Hulda í samtali við VF. Hún stundar nám í frumkvöðlafræðum hjá Keili á Vallarheiði og hefur unnið að þróun viðskiptahugmyndarinnar þar. Hún nýtur fulltingis Nönnu Guðnýjar Sigurðardóttur, löggilts sjúkraþjálfara, við alla rannsóknar- og rýnihópavinnu.

Auðvelt verður að ferðast með koddann en með einu handtaki er honum breytt í fyrirferðalitla tösku sem þægilegt er að ferðast með, að sögn Huldu.
Koddinn verður framleiddur í tveimur stærðum og er áætlað er að hann komi á markað næsta haust.

Mynd - Hulda Sveindóttir með Keili, heilsukodda sem kemur á markað næsta haust.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024