Þrjúþúsundasti nemandinn útskrifast frá Keili
Keilir útskrifaði 117 nemendur við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú í Reykjanesbæ föstudaginn 12. janúar síðastliðinn. Við athöfnina voru brautskráðir 64 nemendur af Háskólabrú, 28 atvinnuflugmenn, 22 flugvirkjar og þrír ÍAK einkaþjálfarar.
Þau tímamót urðu við þetta tækifæri að þrjúþúsundasti nemandinn útskrifaðist úr Keili og hafa nú samtals 3.028 nemendur lokið námi við deildir skólans sem fagnaði tíu ára afmæli á síðasta ári. Þrjúþúsundasti nemandinn er Þórarinn Guðmundur Andrésson, nemandi í Verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar, sem fékk blómvönd frá Keili við þetta tækifæri.
Í hátíðarræðu sinni minntist Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, meðal annars á þá umræðu sem hefur átt sér stað í samfélaginu undanfarið, bæði hér heima og erlendis, og hófst með metoo baráttunni. Lagði hann sérstaka áherslu á mikilvægi þessarar umræðu og þá gagnkvæmu virðingu sem við þurfum að sýna hvert öðru. Bregðast þarf við og taka á öllu ofbeldi, í hvaða mynd sem það birtist, og þar er skólasamfélagið ekki undanskilið. Ofbeldi sem getur birst með ýmsum hætti. Líkamlegt eða kynferðislegt, í orði, í skrifum eða athöfnum. En hver sem myndin er, hljótum við að vilja fjarlægja hverskonar ofbeldi og í hvaða mynd sem það birtist. Með orðræðunni hefur myndast góður vettvangur til að takast á við þetta vandamál á opinskáan hátt og skapa þannig grundvöll til varanlegra breytinga.
Útskrift fjarnámsnemenda Háskólabrúar Keilis
Háskólabrú Keilis brautskráði samtals 64 nemendur úr öllum deildum. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti viðurkennignarskjöl ásamt Skúla Frey Brynjólfssyni, náms- og starfsráðgjafa. Dúx Háskólabrúar var Ragnheiður Pálsdóttir með 9,38 í meðaleinkunn, og fékk hún bók frá Íslandsbanka ásamt spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá fékk Jón Fannar Smárason viðurkenningu frá HS orku fyrir góðan námsárangur af Verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar. Sigurjón Jóhannesson flutti ræðu útskriftarnema.
Með útskriftinni hafa samtals 1.598 nemendur lokið náminu frá árinu 2008 og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Aldrei hafa jafn margir nemendur stundað frumgreinanám í Keili og á þessu ári, en á annað hundrað umsóknir bárust í fjarnám Háskólabrúar sem hófst í byrjun janúar. Þeir bætast við fjölmennasta hóp nýnema í Háskólabrú sem hófu nám síðastliðið haust og stunda þar með núna hátt í þrjú hundruð nemendur frumgreinanám í Keili.
50 nemendur útskrifast úr flugtengdum greinum
Flugakademía Keilis útskrifaði 28 atvinnuflugnema og var þetta í átjánda skiptið sem Keilir brautskráir nemendur úr atvinnuflugnámi skólans. Hafa þá samtals 203 atvinnuflugmenn útskrifast frá upphafi skólans. Aukin aðsókn hefur verið í flugnám við skólann og hefur verið fullbókað í síðustu bekki í náminu, en aldrei hafa fleiri einstaklingar lagt stund á atvinnuflugmannsnám í Keili en nú.
Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis flutti ávarp og afhenti atvinnuflugmönnum prófskírteini ásamt Snorra Pál Snorrasyni skólastjóra Flugakademíunnar. Sören Molbech Madsen fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,75 í meðaleinkunn. Fékk hann gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair.
Þá útskrifaði Flugakademían í fjórða sinn flugvirkjanema, en boðið er upp á námið í samvinnu við AST (Air Service Training) í Skotlandi. Rannveig Erla Guðlaugsdóttir, þjálfunarstjóri flugvirkjanáms, aðstoðaði við útskriftina. 22 nemendur útskrifuðust úr náminu að þessu sinni og fékk Bergur Sverrisson viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Fékk hann bókagjöf frá Isavia.
Með útskriftinni hafa samtals 68 nemendur lokið flugvirkjanámi við skólann. Davíð Ingi Jóhannsson, nemandi í flugvirkjanámi, flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis. Hann hlaut einnig viðurkenningu frá deildinni fyrir góðan árangur og eljusemi og fékk bókagjöf frá Isavia.
Útskriftarhópur Keilis í janúar 2018