Þrjú sveitarfélög sömdu um tryggingar
Sveitarfélögin Garður, Vogar og Sandgerðisbær sömdu við VÍS til næstu tveggja ára.
Sveitarfélögin Garður, Vogar og Sandgerðisbær sömdu við Vátryggingafélag Íslands til næstu tveggja ára. Ríkiskaup, fyrir hönd sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðis og Voga á Vatnsleysuströnd, buðu nýlega út tryggingar fyrir sveitarfélögin.
Um er að ræða ábyrgðartryggingar vegna atvinnurekstrar, ökutækjatryggingar, tryggingar vegna fasteigna, lausafjártryggingar, launþegatryggingar, nemendatryggingar og almennar slysa- og sjúkratryggingar. Útboðið var í þremur hlutum og var óskað eftir tilboðum í tryggingar hvers sveitarfélags fyrir sig. Samið var við Vátryggingafélag Íslands til næstu tveggja ára með framlengingarákvæði um þrisvar sinnum eitt ár.
Þetta mun vera í fyrsta sinn sem sveitarfélög taka sig saman og bjóða út tryggingar sameiginlega. Upphaflega voru fleiri sveitarfélög inni í myndinni en á endanum stóðu ofangreind sveitarfélög eftir. Almenn ánægja er með útboðið og niðurstöðuna hjá fulltrúum sveitarfélaganna og VÍS.
Að sögn verkefnastjóra hjá Ríkiskaupum sem sá um útboðið, hentar þetta fyrirkomulag afar vel við þessar aðstæður og ekkert því til fyrirstöðu að fleiri sveitarfélög geri slíkt hið sama. Ljóst er að ávinningur af tryggingaútboðum sveitarfélaganna er umtalsverður. Þá er ekki eingöngu átt við beina lækkun á iðgjöldum heldur er einnig ávinningur af þeirri endurskoðun á tryggingastofni sveitarfélaganna sem farið var í við undirbúning útboðsins.