Þrjú sveitarfélög nýta forkaupsrétt á hlut ríkisins í HS
Þrjú sveitarfélög, Grindavíkurkaupstaður, Hafnarfjarðabær og Reykjanesbær, hafa sett sig í samband við fjármálaráðuneytið og tilkynnt um að þau ætli að nýta sér forkaupsrétt í Hitaveitu Suðurnesja hf. Tími til að nýta forkaupsréttinn rann út núna kl. 16:00. Óvissa er um það hvort Grindavíkurkaupstaður fái að nýta forkaupsrétt sinn, þar sem fulltrúi Grindavíkurbæjar hafði gert skriflegt samkomulag við Geysi Green Energy og því í raun afsalað sér forkaupsrétti.
Á föstudag var undirritaður samningur Geysis Green Energy um kaup á hlutum annarra sveitarfélaga sem eiga eignarhlut í Hitaveitu Suðurnesja. Eru það sveitarfélögin: Vestmannaeyjabær, Árborg, Kópavogur, Vogar, Sandgerði og Garður. Þá var einnig undirritaður samningur milli Geysis Green Energy og Grindavíkurkaupstaðar, sem nú verður látið reyna á.
Mynd: Frá Reykjanesbæ. Reykjanesbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem ætla að nýta forkaupsréttinn í Hitaveitu Suðurnesja hf. Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson