Þrjú smit í Akurskóla og 100 nemendur í sóttkví
Seint í gærkvöldi komu upp þrjú smit í Akurskóla í Reykjanesbæ, tvö hjá starfsmönnum og eitt hjá nemanda. Í ljósi umfangsins og í samráði við smitrakningarteymið voru allir nemendur og starfsmenn í 7. – 10. bekk settir í úrvinnslusóttkví sama kvöld og upplýsingar bárust. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.
Um eitthundrað nemendur úr 7. og 9. bekk og öðrum hópi 10. bekkjar þurfa að fara í sóttkví þar til niðurstaða úr skimun liggur fyrir. Forráðamönnum þessara nemenda hefur verið tilkynnt um það og hvenær sóttkví lýkur en það er misjafnt eftir því hvenær nemendur voru útsettir fyrir smiti. Þá hafa átta starfsmenn Akurskóla einnig verið sendir í sóttkví vegna málsins. Aðrir árgangar í skólanum eða starfsfólk hafa ekki verið útsettir fyrir smiti.
Ef einhverjar breytingar verða á stöðu mála í skólanum munu skólayfirvöld upplýsa foreldra, segir í tilkynningunni. „Við höfum farið í einu og öllu eftir tilmælum smitrakningarteymis og unnið eftir því verklagi sem þeir setja okkur. Ef einhverjar spurningar vakna biðjum við ykkur þó um að hika ekki við að hafa samband. Hugur okkar í skólanum er hjá þeim smituðu og sendum við þeim okkar bestu kveðjur,“ segir í tilkynningunni frá skólayfirvöldum í Akurskóla.