Þrjú af Suðurnesjum á þing fyrir D-listann?
Á meðan þeir Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason, frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, voru á meðal fyrstu manna til að kjósa í morgun, þá var Ragnheiður Elín Árnadóttir ekki með neinn æsing. Hún mætti á kjörstað í kjördeild 5 í Heiðarskóla núna kl. 14 ásamt Guðjóni eiginmanni sínum og syninum Helga Matthíasi.
Vilhjálmur Árnason er úr Grindavík og skipar 4. sæti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Kannanir hafa sýnt að Vilhjálmur á möguleika á að komast á þing. Hann er hins vegar rólegur og bíður eins og margir aðrir frambjóðendur eftir dómi kjósenda.
Ásmundur Friðriksson, sem skipar 3. sæti D-listans, kaus í Garðinum í morgun. Hann var kominn á kjörstað rétt rúmlega 10 og greiddi atkvæði sitt í kosningunni til Alþingis. Hann fór síðan beina leið á kosningaskrifstofuna sína í Garði þar sem boðið var upp á veitingar. Nú er Ásmundur á ferð um Suðurland en hann ætlaði í dag að heimsækja kosningaskrifstofur allt austur á Hellu.
Ásmundur Friðriksson greiðir atkvæði í Gerðaskóla kl. 10 í morgun. VF-mynd: Hilmar Bragi
Vilhjálmur Árnason kýs í Grunnskóla Grindavíkur kl. 09 í morgun. VF-mynd: Hilmar Bragi