Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þrjátíu Suðurnesjabátar á strandveiðum
Fimmtudagur 5. maí 2022 kl. 13:21

Þrjátíu Suðurnesjabátar á strandveiðum

Um þrjátíu Suðurnesjamenn munu stunda strandveiðar í sumar en venju samkvæmt hófst veiðin 2. maí en ekki er leyfilegt að róa á rauðum dögum.

Suðurnesjamenn hafa ekki látið sitt eftir liggja frekar en fyrri daginn en u.þ.b. þrjátíu strandveiðimenn búa á Suðurnesjunum, átta í Grindavík og u.þ.b. tuttugu í Sandgerði og Garði. Þó landa fleiri en 20 í Sandgerðishöfn en nokkrir sjóarar koma frá höfuðborgarsvæðinu. Enginn strandveiðibátur gerir út frá Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar strandveiðin hófst árið 2009 voru um 70 landanir á dag í Sandgerði. Þessi fækkun í dag  segir ekkert endilega til um að strandveiðisjómennirnir séu færri, þeir geta hafa fært sig á önnur svæði en kerfið býður upp á að viðkomandi getur skráð sig á tiltekið svæði en þarf þá líka að veiða á því svæði allt sumarið.  


Eigendur smábáta mega veiða ákveðið magn af þorski, ufsa og karfa, daglega frá mánudegi til fimmtudags, frá maí til ágúst. Hverjum báti er heimilt að róa í allt að 12 daga í mánuði og má hver veiðiferð ekki taka lengri tíma en 14 klst. frá og til bryggju. Að hámarki fjórar handfærarúllur mega vera um borð. Reglur um magn í hverri veiðiferð breytast venjulega ár frá ári en í sumar verður leyfilegt að koma með 650 kg. í þorskígildum talið.  Þorskígildi miðast við slægðan fisk.

Alls eru 11.100 tonn til umráða í sumar (10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa)

Landinu er skipt í fjögur veiðisvæði;

  •       Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps.
  •       Svæði B: Standabyggð til Grýtubakkahrepps.
  •       Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps
  •       Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar.  (Sjómenn frá Suðurnesjum tilheyra þessu svæði.)

Að sögn Arthurs Bogasonar, formanns Landssambands smábátaeigendahafa strandveiðisjómenn róið 195.045 róðra frá því að strandveiðikerfið hóf göngu sína, til ársins 2021. Heildarmagn úr sjó á þessum tíma eru rúm 115.000 tonn og ef sá afli yrði allur seldur á verði gærdagsins, þá væri aflaverðmætið rúmir 45 milljarðar.  Að sjálfsögðu er það mjög óraunhæft því verð á fiski sveiflast eins og vindurinn og þess ber að geta að verðin á fiskmörkuðunum hafa tilhneigingu til að lækka þegar strandveiðin hefst því þá tekur lögmálið um framboð og eftirspurn við stjórninni, meira framboð af fiski og þá lækka verðin.

Víkurfréttir slógu á þráðinn til Einars Dagbjartssonar, flugstjóra og strandveiðimanns en hann var í miðjum mokstri nálægt Eldey og mátti lítið vera að því að tala við blaðamann. Hann sagði að veiðin hefði farið vel af stað á þessu strandveiðitímabili og gott hljóð væri í grindvískum strandveiðimönnum. „Það er ástæða til bjartsýni með framhaldið.“ 

Einar smellti einni mynd af sér og sendi blaðamanni, Einar er vinstra megin á myndinni.