Þrjátíu rúma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ árið 2007
Gert er ráð fyrir að hjúkrunarheimili með 30 rúmum verði tekið til notkunar í Reykjanesbæ árið 2007. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu forsvarsmanna stjórnar Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Garðs, Sandgerðis og Reykjanesbæjar sem undirritaður var fyrir stuttu. Í yfirlýsingunni er einnig gert ráð fyrir að aðstaða á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði verði bætt og komið er fram með leiðir til að bæta þjónustu við aldraða á Suðurnesjum.
Yfirlýsingin er í samræmi við niðurstöður viðræðna bæjarstjórans í Reykjanesbæ, framkvæmdastjóra Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum og embættismanna í Heilbrigðisráðuneytinu í kjölfar yfirlýsingar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um málið.
Samþykki Heilbrigðisráðuneytið þá lausn sem fram er sett, mun DS taka að sér að leysa brýnustu þörf eftir hjúkrunarrými til bráðabirgða. Bráðbirgðalausnin er þó algjörlega bundin því að undirritað sé samkomulag um byggingu nýja hjúkrunarheimilisins sem hafist verður handa við á næsta ári og tekið í notkun árið 2007. Samhliða þessari uppbyggingu í Reykjanesbæ verður byggður þjónustukjarni til að mæta aukinni þörf fyrir félagsstarf,
heimaþjónustu og dagvist, ásamt öryggisíbúðum fyrir aldraða samkvæmt markmiðum í stefnuskrá Reykjanesbæjar.
Sameiginleg yfirlýsing um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ og leiðir til að bæta þjónustu við aldraða á starfssvæði Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum.
Bætt þjónusta við aldraða
Með nýlegri ákvörðun um framtíðarskipulag á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) koma fram miklir kostir en einnig vankantar í öldrunarþjónustu á Reykjanesi.
Kostirnir eru ótvírætt þeir að HSS getur með breyttri stefnu sinnt mun fleiri öldrunarsjúklingum sem sjúkrastofnun en hún gæti gert sem hjúkrunarheimili. Til lengri tíma mun það stuðla að því að fleiri aldraðir geti fengið læknismeðgerð hjá HSS og lengt dvöl á eigin heimili.
Vankantarnir eru þeir að við breytingu á áherslum HSS hverfur ekki þörf fyrir hjúkrunarrými, en í fyrri stefnu HSS gegndi stofnunin lykilhlutverki í lausn hjúkrunarrýma og þar með lausn á hjúkrunarheimilisþörf í Reykjanesbæ.
Nýja stefnan mun til lengri tíma hafa áhrif til minni þarfar fyrir hjúkrunarrými, en hún eyðir ekki þörfinni. Því þarf áfram að leysa þá brýnu þörf sem fyrir hendi er og byggja aðstöðu til framtíðar sem gerir ráð fyrir öllum stigum í þjónustu.
Sameiginleg framtíðarsýn
Í viðræðum við forsvarsmenn heilbrigðisráðuneytisins hefur komið fram sameiginlegur skilningur og framtíðarsýn á þjónustu við aldraða. Viðurkennt er að samhliða breyttu skipulagi HSS sé nauðsynlegt að stuðla að þróun þjónustusvæðis/kjarna þar sem einnig er komið til móts við þörf fyrir hjúkrunarrými í Reykjanesbæ.
Nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ
Samkvæmt síðasta vistunarmati Þjónustuhóps aldraðra á Suðurnesjum eru 15 aldraðir í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými. Samkvæmt upplýsingum í samantekt Sigurðar Garðarssonar, rekstrarráðgjafa, um aldursþróun, fjölgun íbúa í Reykjanesbæ, áætlaða þörf fyrir stofnanavistun á næstu árum og lágmarksstærð í rekstrareiningu, er nauðsynlegt að miða við 30 hjúkrunarrými í nýju hjúkrunarheimili á næstu 5 árum. Í framtíðarskipulagi Reykjanesbæjar á nýja þjónustusvæðinu er gert ráð fyrir að byggðar séu þrjár 30 rúma einingar í nýju hjúkrunarheimili. Þannig fer vel á að fyrsta einingin sem byggð verður rúmi 30 aldraða eins og að framan greinir.
Nú þegar eru heimildir fyrir 10 hjúkrunarplássum á HSS í Reykjanesbæ sem ekki eru nýttar hjá HSS sem kæmu inn á nýja hjúkrunarheimilið. Þá eru nokkur pláss á vegum HSS ónýtt í Víðihlíð sem kæmu að fullum notum á nýja hjúkrunarheimilinu í Reykjanesbæ.
Til bráðabirgða myndu amk. 10 hjúkrunarpláss vera sett upp á Hlévangi, sem frá þessu ári og fram til 2006 væri úthlutað hjúkrunarplássum í stað dvalarplássa til að leysa úr brýnustu þörf í dag.
Þá er stefnt að því að vinna að endurbótum og stækkun vistrýma á Garðvangi með það að markmiði að þar geti verið um 30 hjúkrunarsjúklingar. Þannig myndu 10 hjúkrunarpláss á Garðvangi færast yfir á nýja hjúkrunarheimilið í Reykjanesbæ. Forsvarsmaður Framkvæmdasjóðs aldraðra hefur lýst yfir vilja til að sjóðurinn styðji það verkefni.
Yfirstjórn áfram í höndum DS
Miðað við framangreint er gert ráð fyrir að verkefnið verði unnið á vegum Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum. Við opnun nýja hjúkrunarheimilisins er því gert ráð fyrir að DS hafi yfir að ráða 60 hjúkrunarrýmum í tveimur stofnunum: í Garði (30) og í Reykjanesbæ (30). Með þessu er sparnaður í sameiginlegri yfirstjórn og samtengingu læknis- og hjúkrunarþjónustu.
Mikilvægar tímasetningar í þróun Garðvangs og nýs hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ
2004 Lokið gerð deiliskipulags fyrir þjónustusvæði í þágu aldraðra í Reykjanesbæ
2004- 05 Tíu dvalarrýmum breytt í hjúkrunarrými á Hlévangi
2005 Bygging þjónustukjarna í heimaþjónustu og félagsaðstöðu í Reykjanesbæ
2005- 07 Bygging 1. áfanga hjúkrunarheimilis (30 rúm)
2005- 06 Unnið að tilfærslum og viðgerðum á Garðvangi m.v. 30 rúma hjúkrunareiningu. Unnið með stuðningi framkvæmdasjóðs aldraðra.
2006 Bygging öryggisíbúða og tenging þeirra við heimaþjónustukjarna
2007 Fyrsti áfangi hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ (30 hjúkrunarsjúklingar) tekinn í notkun á nýju hjúkrunarheimili og tenging þess við öryggisíbúðir.
Hvaðan koma hjúkrunarrýmin á nýja hjúkrunarheimilið:
Til að leysa þann brýna hjúkrunarvanda sem þegar er til staðar verði eftirfarandi gert:
2004- 05 Með heimild Heilbrigðisráðuneytis verði 10 dvalarrýmum á Hlévangi breytt í hjúkrunarrými, sem ætlað er að leysa brýnasta vanda í dag. Þessi rými flytjast svo yfir í nýja hjúkrunarheimilið við opnun þess árið 2007
2006- 07 DS ákveður að í framhaldi af viðgerðum á Garðvangi sem miða að bættri þjónustu við íbúa verði 10 hjúkrunarrými á Garðvangi flutt yfir til nýja hjúkrunarheimilisins
2006 - 07 Heimild fyrir 10 ný hjúkrunarrými kemur frá Heilbrigðisráðuneytinu, enda gert ráð fyrir þeim hjá HSS í dag þótt þau séu ekki í boði vegna breytts skipulags þar.
Með framangreindum hætti telja forsvarsmenn Reykjanesbæjar, Voga, Garðs, Sandgerðis, DS og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að skynsamlega verði staðið að uppbyggingu öldrunarþjónustu á starfssvæði DS, sem tryggi að þörfum íbúa er mætt á réttum tíma.
Leitað er til Heilbrigðisráðuneytisins um samþykki fyrir endurbótum á hjúkrunarmálum aldraðra og uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ á vegum DS á framangreindum grunni:
Garði, 9. júlí 2004
Tölvumynd: Á myndinni sést yfir það svæði í Reykjanesbæ þar sem gert er ráð fyrir hjúkrunarheimili og þjónustusvæði aldraðra.