Þrjár milljónir í vexti á dag hjá Reykjanesbæ
- Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2016-2019 á bæjarstjórnarfundi
Rekstrarniðurstaða eftir afskriftir í bæjarsjóði Reykjanesbæjar er jákvæð sem nemur 585 millj. kr. en 1357 millj. kr. vaxtakostnaður af lánum skilar bæjasjóði í 772 m.kr. í mínus. Framlegð frá rekstri Reykjanesbæjar batnar verulega frá árinu 2014 sem og frá útkomuspá 2015 og nemur rétt tæpum milljarði króna. Það dugar þó skammt þegar afskriftir og vaxtakostnaður eru um 1800 milljónir. Reykjanesbær er að greiða yfir 100 millj. kr. á mánuði í vexti, rúmar 3 millj. kr. á dag. „Þetta sýnir vel hversu mikilvægt það er að ná skuldunum niður,“ sagði Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri við VF en fyrri umræða um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2016-2019 var lögð fram á bæjarstjórnarfundi í gær.
Minnihluti sjálfstæðismanna bókaði á fundinum og sagði m.a. að áætlunin væri eingöngu stöðutaka sem sýni stöðu ef hvorki yrði áfram unnið í tekjuöflun eða samningum um skuldir bæjarsins. (Sjá nánar í annarri frétt á vf.is)
Í tilkynningu frá Reykjanesbæ segir:
Í fjárhagsáætluninni kemur fram að í bæjarsjóði (A-hluta) að framlegð rekstrar batnar verulega frá árinu 2014 sem og frá útkomuspá 2015 og verður um 967 mkr. Í Sókninni sem var kynnt fyrir rétt rúmu ári síðan var gert ráð fyrir að framlegð úr rekstri bæjarins þyrfti að aukast um 900 mkr. Rekstrarniðurstaða eftir afskriftir í bæjarsjóði er jákvæð og er um 585 mkr.
Vegna skuldastöðu bæjarfélagsins eru fjármagnsgjöldin há m.a. að teknu tilliti til áætlaðrar verðbólgu sbr. Þjóðhagsspá og eru fjármagnsgjöldin áætluð 1.357 mkr í bæjarsjóði.
Gert er ráð fyrir að fjármagn vegna nýframkvæmda verði 300 mkr. Einnig er gert ráð fyrir að á árinu 2017 verði byggður nýr leikskóli og á árinu 2018 verði byggður nýr grunnskóli.
Gert er ráð fyrir 1% íbúafjölgun árlega. Útsvar verður 15,05% á árinu 2016 en mun svo lækka aftur í 14,52% frá 1. janúar 2017.
Hvað varðar skuldir og skuldbindingar Reykjanesbæjar og dótturfyrirtækja (Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar) þá er í þessari fjárhagsáætlun gert ráð fyrir óbreyttri stöðu lána og leiguskuldbindinga enda er ekki komin nein niðurstaða í viðræðum við kröfuhafa.
Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:
• Rekstrarniðurstaða samstæðu (A+B hluti) árið 2016 er neikvæð um 600 mkr.
• Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs (A hluti) árið 2016 er neikvæð um 772,4 mkr.
• Eignir samstæðu árið 2016 er 49,1 milljarður
• Eignir bæjarsjóðs árið 2016 er um 25 milljarðar
• Skuldir og skuldbindingar samstæðu árið 2016 er 44,6 milljarðar
• Skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs árið 2016 er 23,9 milljarðar
• Veltufé frá rekstri samstæðu árið 2016 er 2.821 mkr
• Veltufé frá rekstri bæjarsjóðs árið 2016 er 745 mkr