Þrjár milljónir í heimasíðugerð
Samningur um verktöku við endurbyggingu á heimasíðu Grindavíkurbæjar varð tilefni til snarpra umræða á síðasta bæjarstjórnarfundi þar í bæ. Meirihlutinn í bæjarstjórn telur löngu tímabært að fara í breytingar á heimasíðu bæjarins. Minnihlutinn harmar þá ákvörðun og segir að á sama tíma og forstöðumönnum stofnana bæjarins sé tilkynnt um niðurskurð sé verið að eyða í kostnað sem megi bíða þar til betur ári.
Í greinargerð meirihlutans segir að löngu tímabært sé að fara í gagngerar breytingar á heimasíðu bæjarins en hún mikla þýðingu í markaðssetningu bæjarfélagsins auk þess að vera aðalupplýsingaveita og andlit Grindavíkurbæjar út á við.
Í bókun fulltrúa D-listans er ákvörðun meirihlutans hörmuð. Þeir segja meirihlutann ekki með nokkru móti átta sig á því að enn sé verið að auka rekstrarhalla næsta árs.
„Grindavíkurbær getur auðveldlega lifað við gömlu heimasíðuna eitthvað áfram, ekki þarf að eyða í hana nú fjármunum að upphæð 3.165.500 kr. án virðisaukaskatts. Þetta er gert þó vitað sé að vinna við fjárhagsáætlun sé í fullum gangi og þurfi að minnka hallarekstur í samkomulagi við minnihluta,“ segir í bókun D-listans.
„Það er með ólíkindum hve þröngsýnir Sjálfstæðismenn eru í þessu brýna máli. Til að efla byggðina þarf að markaðssetja hana og efla alla kynningu Grindavíkurbæjar á heimasíðu bæjarins. Hún er lykill aðkomumanna að bænum og nauðsynlegur miðill líka fyrir heimamenn. Upplýsingar um atvinnulíf, ferðaþjónustu og alla þjónustuþætti sveitarfélagsins þurfa að vera mun aðgengilegri en í dag. Það kom glögglega fram í fundarröð bæjarstjórnar með hagsmunaaðilum atvinnulífsins í Grindavík að heimasíðan skiptir mjög miklu máli í allri markaðssetningu á ferðatengdri þjónustu í bænum. Með góðri markaðssetningu er hægt að auka tekjur bæjarins og fjölbreytni tækifæra sem væntanlega auka tekjur Grindavíkurbæjar,“ segir í bókun sem meirihlutinn lagði fram vegna málsins.