Þrisvar kölluð út á rauðum forgangi
Aðalfundur Björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík var haldinn mánudagskvöldið 3. maí. Í skýrslu Birkis Agnarssonar, fráfarandi formanns, kom fram að sveitin fékk 42 útköll á árinu 2003 og er það nokkur fækkun frá síðustu árum. Af þessum 42 útköllum voru 27 á sjó. Sveitin var í þrígang kölluð út á rauðum forgangi, sem er neyðarútkall. Það var þegar flutningaskipinu Trinket var bjargað stjórnvana í innsiglingunni í febrúar 2003; þegar Draupnir GK fórst 12 sml. suður af Grindavík og þegar dráttarbáturinn Gamli lóðsinn fórst um 4 sml. norðvestur af Reykjanesi. Í öllum þessum tilvikum varð mannbjörg.
Sveitin tók þátt í fjórum leitum að týndu fólki, þar á meðal köfunarleitum á Seyðisfirði og við Borgarnes. Þá fór sveitin í margar ferðir til aðstoðar, bæði á landi og sjó. Má þar nefna að björgunarskipið Oddur V. Gíslason dró fjóra bilaða báta til hafnar og bifreiðar sveitarinnar voru sjö sinnum kallaðar út til aðstoðar föstum bílum.
Á aðalfundinum var Daníel Gestur Tryggvason kjörinn formaður björgunarsveitarinnar og Birgir Reynisson varaformaður. Með þeim í stjórn eru Sigurður Viðarsson ritari, Guðbjörg Eyjólfsdóttir gjaldkeri, Agnar Smári Agnarsson, Jón Valgeir Guðmundsson og Ólafur Ingi Jónsson meðstjórnendur.
Myndin: Björgunarsveitin við leit að flugvélarbraki á Krísuvíkurbjargi á síðasta ári. Ljósmynd/Björungarsveitin Þorbjörn.