Þrír piltar ákærðir fyrir hrottalega líkamsárás
Þrír piltar úr Njarðvík, allir fæddir árið 1993, hafa verið ákærðir fyrir hrottafengna líkamsárás á jafnaldra sinn og samnemanda við Njarðvíkurskóla. Árásin átti sér stað í nóvember síðastliðnum og vakti sérstaka athygli þar sem myndband af henni var sett á vefinn og vakti mikinn óhug. Greint er frá þessu á fréttavefnum visir.is
Árásin vakti mikinn óhug á sínum tíma en árásin var tekin upp á myndband og sett á netið. Á myndbandinu sást hvar fórnarlambið var ítrekað slegið í andlit og skrokk. Pilturinn féll í jörðina þar sem árásarmennirnir spörkuðu í hann liggjandi af miklu offorsi, bæði í bak hans og höfið.
Pilturinn hlaut töluverða áverka af árásinni, en slapp þó við beinbrot og varanleg meiðsl. Hann krefur árásarmennina um eina milljón króna í miskabætur, samkvæmt frétt visir.is.
Piltarnir eru ákærðir fyrir brot gegn 217. grein hegningarlaga, sem kveður á um minniháttar líkamsárás. Haft er eftir Júlíusi Kristni Magnússyni, lögreglufulltrúa á Suðurnesjum, að ákvörðun um að ákæra ekki fyrir meiri háttar líkamsárás hafi verið tekin í samráði við embætti Ríkissaksóknara, sem fer með ákæruvald í meiri háttar líkamsárásarmálum. Hann mun hafa lagst gegn slíkri ákæru í þessu máli.
Af www.visir.is
---
Mynd: Umrædd árás var tekin upp á myndband og sett á netið. Myndbandið vakti mikinn óhug en það sýndi glögglega hversu hrottafengin árásin var.