Þrír óku undir áhrifum fíkniefna
Skráninganúmer fjarlægð af fjórum ótryggðum bifreiðum.
Tveir ökumenn sem óku undir áhrifum fíkniefna voru stöðvaðir í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í gær. Sýnatökur staðfestu að báðir hefðu þeir neytt kannabisefna. Þriðji ökumaðurinn var stöðvaður um helgina. Hann hafði einnig neytt kannabisefna, að því er sýnatökur staðfestu, og geymdi að auki allnokkuð af kannabisefnum á heimili sínu. Lögregla haldlagði efnin.
Þá ók einn ökumaður sviptur ökuréttindum. Lögregla fjarlægði skráningarnúmer af fjórum bifreiðum sem allar voru ótryggðar. Eina þeirra hafði átt að færa til skoðunar í júní á síðasta ári. Loks voru tveir ökumenn sektaðir fyrir að leggja bifreiðum sínum ólöglega og einn fyrir að aka án þess að nota öryggisbelti.