Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þrír með fölsuð skilríki
Föstudagur 27. apríl 2012 kl. 09:20

Þrír með fölsuð skilríki

Þrír menn með fölsuð vegabréf voru stöðvaðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrradag. Tveir karlmenn sem ferðuðust saman framvísuðu frönskum vegabréfum er lögregla hafði afskipti af þeim í flugstöðinni. Þeir komu með flugi SAS frá Ósló í Noregi. Við skoðun vegabréfanna kom í ljós að þau eru grunnfölsuð. Mennirnir kveðast báðir vera frá Alsír.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þá framvísaði maður sænsku vegabréfi við landamæraeftirlitið í flugstöðinni. Hann átti bókað far með flugi til Kanada en hafði skömmu áður komið með flugi frá Kaupmannahöfn. Landamæraverði grunaði að ekki væri allt með felldu og færði því manninn til hliðar til frekari skoðunar. Grunur landamæravarðarins var á rökum reistur þar sem í ljós kom með andlitssamanburði að maðurinn er ekki lögmætur handhafi vegabréfsins sem hann framvísaði. Maðurinn hefur játað brot sitt og kveðst nú vera frá Nígeríu. Maðurinn hefur verið kærður fyrir misnotkun skjals.


Málin eru nú öll til rannsóknar. Meðal annars er unnið að því að reyna að bera rétt kennsl á mennina svo og að athuga hvort þeir kunni að vera eftirlýstir einhversstaðar.


Það sem af er þessu ári hafa ellefu fölsunarmál komið upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að auki hafa tveir skilríkjalausir menn verið stöðvaðir í flugstöðinni. Á sama tímabili árið 2011 voru fölsunarmálin fjögur talsins. Allt árið 2011 komu 33 fölsunarmál upp í flugstöðinni sem var 43% aukning frá árinu 2010.