Þrír létu sig hverfa af vettvangi
Þrír ökumenn óku á eða utan í bifreiðar í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni og stungu síðan af. Í tveimur tilvikum var ekið á kyrrstæðar bifreiðar og sá eigandi annarrar þeirra þegar bakkað var á bíl hans. Það hafði enginn áhrif á gerandann, sem ók burt.
Í þriðja tilfellinu ók ökumaður á röngum vegarhelmingi og rakst bifreið hans utan í aðra sem kom á móti. Hann stöðvaði bíl sinn sem snöggvast, en þegar ökumaður hinnar bifreiðarinnar ætlaði að hafa tal af honum lét hann sig hverfa af vettvangi.
Þá hafði lögregla afskipti af ökumanni sem ók sviptur ökuréttindum, tveimur sem töluðu í síma án þess að nota handfrjálsan búnað og sex sem ekki voru með öryggisbelti spennt.