Þrír grunnskóladrengir dæmir í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi
Þrír drengir, sem fyrir ári síðan voru reknir úr Njarðvíkurskóla vegna hættulegrar líkamsárásar, voru í morgun dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness vegna hennar. Þeir fengu allir tveggja ára skilorðsbundið fangelsi. Að auki er hverjum þeirra gert að greiða málskostnað á bilinu 370 – 390 þúsund krónur í hverju tilviki.
Líkamsárásin vakti mikin óhug í samfélaginu á sínum tíma en hún var tekin upp á síma og myndskeiðið sett á YouTube. Upptakan var m.a. notuð sem málsgagn fyrir héraðsdómi.
Hinir þrír ákærðu eru dæmdir fyrir líkamsárás með því að hafa þann 20. nóvember 2008 ráðist í sameiningu á kæranda við strætisvagnabiðskýli á mótum Grundarvegar og Brekkustígs í Reykjanesbæ. Einn þeirra með því að hafa snúið kæranda niður með hálstaki, kýlt hann ítrekað hnefahöggum í efri hluta líkamans og sparkað ítrekað í bak hans þar sem hann lá. Öðrum er gefið að sök að hafa aðstoðað við að fella kæranda í jörðina, kýlt hann hnefahöggum í efri hluta líkamans, sparkað þrisvar í bak hans og einu sinni í höfuð. Sá þriðji er ákærður fyrir að hafa sparkað þrisvar sinnum í andlit kæranda þar sem hann lá á jörðinni. Við árásina hlaut kærandi ýmsa áverka.
Á umræddu myndskeiði sést þegar einn ákærðu veitist að kæranda, tekur hann hálstaki og kemur honum í jörðina með aðstoð annars sem einnig var ákærður. Einnig sést á myndskeiðinu þegar einn ákærðu kýlir kæranda og sparkar ítrekað í bak hans eins og lýst er í ákæru. Þá kemur myndskeiðið jafnframt heim og saman við lýsingu í ákæru um þátt þriðja ákærða í málinu. Sá átti að hafa sparkað í höfuð kæranda. Í niðurstöðu dómsins segir að ákærði hafi neitað þeirri sök og verði að telja hana ósannaða þar sem því verði ekki slegið föstu af umræddu myndbandi.
Dómsniðurstöðuna er hægt að lesa í heild sinni á vef Héraðsdóms Reykjaness.