Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 22. janúar 2002 kl. 23:41

Þrír aðilar hlutu Víkurfréttaverðlaunin í kvöld

Víkurfréttaverðlaunin 2001 voru afhent í kvöld. Þetta er í annað sinn sem Víkurfréttir standa að svona útnefningu en í tíu ár á undan hefur blaðið valið menn ársins. Útnefnt er í þremur flokkum, íþróttum, menningu og listum og loks atvinnulífi.Íþróttaverðlaun Víkurfrétta - Freyja Sigurðardóttir:
Íþróttakonan Freyja Sigurðardóttir, byrjaði snemma í fimleikum og það hefur svo sannarlega skilað sér hjá henni í keppni meðal bestu fitnesskvenna hér á landi. Hún hóf að stunda fimleika með Keflavík 9 ára gömul en hætti í þeim 1998. Í fimleikunum hafði hún náð góðum árangri og varð m.a. fjórum sinnum Suðurnesjameistari og komst í landslið Íslands. Ekki leið á löngu þar til hún fékk áhuga á fitness sem þá var ný íþrótt á Íslandi. Hápunkti í íþróttinni náði hún á árinu 2001 en þá varð hún Íslands- og bikiarmeistari í IFBB fitness og svo fór hún á heimsmeistaramót sem haldið var í Brasilíu og varð þar í 15. sæti. Freyja varð einnig Íslandsmeistari í Galaxy fitness 1999 og 2000 og bikarmeistari 2001. Hún sigraði einnig á alþjóðlegu móti sem fram fór í Laugardagshöll árið 2000. Freyja hefur því undanfarin ár borið höfuð og herðar yfir aðra keppinauta sína í íþróttinni. Freyja Sigurðardóttir hlýtur íþróttaverðlaun Víkurfrétta 2001

Menningar- og listaverðlaun Vikurfrétta - Norðuróp:
Menning og listir hafa oft átt undir högg að sækja á Suðurnesjum - bítlabær í nálægð varnarliðs - var oft sagt á árum áður en það hefur heldur betur verið að breytast enda mikið og metnaðarfullt starf verið unnið undanfarin ár.
Það má þó segja að nýtt skref hafi verið stigið á síðasta ári þegar bræðurnir Sigurður og Jóhann Smári Sævarssyni og eiginkona Jóhanns, Elín Halldórsdóttir, fóru fylktu liði og stóðu að uppsetningu á tveimur óperum og Sálumessu undir nafni Norðuróps, félags þeirra sem þau Jóhann og Elín stofnuðu á Akureyri fyrir þremur árum. Framtakið vakti mikla athygli og fékk uppsetningin mikla athygli í öllum stærstu fjölmiðlum landsins. Fluttar voru óperurnar Gianni Schicchi eftir Puccini og Requiem sálumessa eftir Sigurð Sævarsson 10. til 12. ágúst og síðan á Ljósanótt var Z-ástarsaga eftir Sigurð Sævarsson frumflutt en hún var skrifuð eftir samnefndri skáldsögu hinnar kunnu Vigdísar Grímsdóttur.
Óperuveislan í Reykjanesbæ er bæjarbúum ennþá í fersku minni, en það er dýrt að halda svona menningaviðburð þó veislan í fyrra hafi verið ódýr miðað við það sem gengur og gerist, Norðuróp mun því á þessu ári standa fyrir tónleikum til að rétta af mismun frá því í fyrra og vonandi verða Víkurfréttaverðlaunin í flokki menningar og lista þeim hvatning til að halda áfram á sömu braut.

Atvinnu- og mannlífsverðlaun Víkurfrétta - Fræðasetrið í Sandgerði:
Það hefur gengið á ýmsu í atvinnulífinu á síðasta ári. Það er því gott til þess að vita að metnaðarfullt starf sé unnið á sviði ferðaþjónustu og rannsókna í Fræðasetrinu í Sandgerði, en ferðaþjónusta er ein mest vaxandi atvinnugrein landsins í dag.
Fræðasetrið hefur verið starfrækt síðan árið 1995, en fyrir þann tíma var þarna miðstöð fyrir botndýrarannsóknir sem er ennþá starfrækt á neðri hæð hússins, þar sem einu sinni var frystihús en er núna glæsilegt og eftirsótt fræðimannasetur. Upphafið að Fræðasetrinu er í botndýrarannsóknunum, það fór að vanta húsnæði fyrir alla þess fræðimenn og vísindamenn sem komu og unnu að rannsóknum á fuglum, fiski eða fjörunni. Erlendu fræðimennirnir sem hafa komið hingað síðan starfsemin byrjaði eru tæplega 300 og flestir af þeim eru stúdentar sem hafa verið hér frá tveimur og upp í tólf vikur í senn. Þetta náði hápunkti síðasta sumar en þá komu um 70 manns.
Þetta nafn, fræðasetur, er komið úr Sandgerði. Á sínum tíma vakti það upp margar spurningar en núna er þetta orði að tískuorði og búið að stofna fræðasetur víða. Sandgerðingar eru frumkvöðlar að svona setri og þar er tekið á móti ferðamönnum og skólahópum og á undanförnum árum hafa komið fimm til sjö þúsund gestir á ári. Útlendingar koma hingað á eigin vegur því enska orðið „Natur Center" er vel þekkt og Bandaríkjamenn skilja það orð vel. Það er því ljóst aðFræðasetrið byggir upp góða ímynd fyrir Sandgerði og allir sem þar búa njóta góðs af.
Reynir Sveinsson hefur verið í forsvari fyrir Fræðasetrið og hann tók við viðurkenningunni fyrir hönd fræðasetursins.

Nánar verður fjallað um athöfnina í Víkurfréttum á fimmtudag og þar birt viðtöl við þá þrjá aðila sem fengu Víkurfréttaverðlaunin afhent í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024