Þriggja stjörnu tjaldsvæði rís í Reykjanesbæ
Í sumar verður opnað þriggja stjörnu tjaldsvæði ofan Reykjanesbæjar. Tjaldsvæðið er útbúið samkvæmt nýjustu stöðlum, en Alex ferðaþjónustan verður rekstraraðili tjaldsvæðisins. Framkvæmdir við tjaldsvæðið eru hafnar við mótelið og á að opna það almenningi þann 1. júní. Á tjaldsvæðinu verður mjög góð aðstaða fyrir gesti og sem dæmi má nefna að á tjaldsvæðinu verður glæsileg salernis og sturtuaðstaða, setustofa með sjónvarpi, gott úrval af bókum um Ísland og mjög góð aðstaða fyrir húsbíla þar sem hægt verður að hafa aðgang að rafmagni án aukagreiðslu. Tjaldsvæðið Stekkur sem nú er við hlið Samkaupa í Njarðvík mun verða lagt af og Reykjanesbær draga sig úr þeim rekstri. Samt sem áður munu ýmiskonar hópar fá aðgang að Stekk eins og verið hefur.
Myndin: Framkvæmdir ganga vel við gerð nýs tjaldsvæðis við Mótel Alex ofan Reykjanesbæjar. VF-ljósmynd/Atli Már.