Fréttir

Þriggja ára beið í tíu tíma með gat á hausnum
Fimmtudagur 17. ágúst 2017 kl. 12:11

Þriggja ára beið í tíu tíma með gat á hausnum

-„Skelfilegt ástand á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja,“ segir móðir drengsins

„Mér finnst þetta skelfilegt. Á ekki að fara að gera eitthvað í þessum málum?“ spyr Ásdís Ágústsdóttir, en í gær beið hún í tíu klukkustundir eftir læknisþjónustu fyrir þriggja ára son sinn.

Aron hafði fengið gat á hausinn á leikskólanum sínum og eftir hádegi fór hann ásamt móður sinni á slysa- og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til aðhlynningar. Þar biðu þau í þrjá og hálfan tíma án nokkurrar læknisaðstoðar. Einn læknir var á vakt á spítalanum sem að sögn Ásdísar hafði engan tíma til að tala við þau. „Eftir þessa bið fékk ég óþægilega tilfinningu fyrir þessu svo ég ákvað að fara með hann til Reykjavíkur.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á Landspítalanum í Fossvogi var vel tekið á móti þeim og þeim fylgt á sérstaka barnastofu en eftir það tók við rúmlega fjögurra klukkustunda bið. Aroni var gefið kæruleysislyf klukkan 21 þar sem hann var svo saumaður af lækni. „Ég er rosalega ánægð að hafa farið með hann til Reykjavíkur en þetta ástand er skelfilegt. Aron stóð sig hins vegar eins og hetja,“ segir Ásdís.

Bæta þarf við starfsfólki á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja svo álagið minnki en Ásdísi finnst ólíklegt að það gerist. „Ég sá aðeins einn lækni og tvær hjúkrunarkonur á flakki á HSS. Það er fáránlega mikið að gera hjá þeim. Það er mikið af frábæru fólki að vinna á HSS en ástandið þar er bara skelfilegt.“