ÞRIGGJA ÁRA ÁÆTLUN LÍTUR DAGSINS LJÓS
Þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2000-2002 leit dagsins ljós sl. þriðjudag og í forsendum hennar er gert ráð fyrir 1% fjölgun gjaldenda á ári. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélaginu verði gert skylt að innheimta fullt útsvar 12.04% frá 1. janúar á næsta ári og að 2% hækkun á fasteignamati verði á milli ára. Þjónustugjöld bæjarins, s.s. að sundstöðum, íþróttahúsum ofl. munu hækka um 2% á ári en rekstrarhluti áætlunarinnar er byggður á rekstraráætlun bæjarins fyrir árið 1999. Einnig er gert ráð fyrir í áætluninni að laun hækki að meðaltali um 3% á ári.Skóla- og fræðslumál taka drjúgan hluta framkvæmdaáætlunarinnar en þar er gert ráð fyrir að nýr leikskóli verði tekinn í notkun á næsta ári. Þá verður einnig lokið við stækkun Tjarnarsels og lóðarframkvæmdum við Holt og Brekkustígsvöll. Endurbótum og nýbygginu á húsnæði Myllubakkaskóla og endurbótum á Holtaskóla verður lokið um áramótin 1999-2000 sem og nýbyggingu Njarðvíkurskóla en þar er fyrirhugað að framkvæmdum ljúki á næsta ári. Íþróttamál eru einnig í farvatninu og þar er fyrirhugað að taka fjölnota íþróttahús í notkun á næsta ári. B-salnum við Sunnubraut verður breytt í fimleikasal árið 2001 og endurbótum á Íþróttamiðstöð Njarðvíkur mun ljúka sama ár eða ári síðar. Önnur mál er varða áætlunina eru framkvæmdir vegna frárennslismála og viðhaldsverkefni í gatnagerð, endurbyggingu Duushúsa og Fisherhúss verður framhaldið sem og gamla bæjarhluta Keflavíkur og þá er áætlað að menningarfulltrúi taka til starfa á næsta ári.