Þriðja stærsta líkamsræktarstöð landsins opnar á Ásbrú
Sporthúsið opnaði sl. laugardag nýja og glæsilega 2000 fermetra heilsu- og líkamsræktarstöð á Ásbrú í Reykjanesbæ. Mikill fjöldi fólks lagði leið sína í stöðina þegar hún opnaði, enda var aðgangur ókeypis á opnunardaginn til að gefa fólki tækifæri á að kynna sér stöðina sem er þriðja stærsta líkamsræktarstöð landsins.
Það er Suðurnesjafólkið og hjónin Ari Elíasson og Eva Lind Ómarsdóttir sem eiga og reka stöðina ásamt eigendum Sporthússins í Kópavogi, bræðrunum Þresti Jóni og Inga Páli Sigurðssonum. Sporthúsið er vel þekkt fyrirtæki á þessu sviði og rekur eina stærstu og öflugustu líkamsræktarstöð landsins í Kópavogi.
Sporthúsið á Ásbrú mun bjóða allt það helsta í líkamsrækt í dag; fullkomin tækjasal, einkaþjálfun, leikfimisali , CrossFit, HotYoga, skvass, spinning, Fit pilates, ketilbjöllur og úrval opinna tíma. Einnig verður boðið uppá barnagæslu, veitingasölu og boostbar, auk þess sem fyrirhuguð er opnun verslunnar í húsnæðinu.
Þá verður Sporthúsið í samstarfi við íþrótta- og heilsuskóla Keilis.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnun stöðvarinnar sl. laugardag.
Félagarnir Arnar Helgi Lárusson og Jóhann Rúnar Kristjánsson opnuðu Sporthúsið formlega. Þeir eru báðir bundnir við hjólastól en aðgengi fyrir hjólastóla er mjög gott í húsinu.
Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri KADECO, óskar eigendum stöðvarinnar til hamingju með opnunina. KADECO er eigandi hússins.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, ávarpaði gesti við opnun Sporthússins.
Séð inn í tækjasalinn. Hér er rúmt um tækin, vítt til veggja og hátt til lofts.
Fjölmargir voru viðstaddir opnun Sporthússins á Ásbrú.
Fjölmörg hlaupabretti eru í Sporthúsinu.
Crossfit hefur góða aðstöðu í nýja Sporthúsinu á Ásbrú.
Spinningsalurinn.
Arnar Helgi Lárusson refsar lóðum í líkamsræktinni.