Þreyttur ökumaður talinn ölvaður
Lögregla stöðvaði ökumann á Reykjanesbraut í gærdag þar sem aksturslag hans þótti einkennilegt. Ökumaður viritist allsgáður en bar við þreytu. Var honum gert að hætta akstri, þáði hann aðstoð lögreglu við að komast á áfangastað.
Á dagvaktinni hafði lögregla afskipti af níu ökumönnum til viðbótar. Í Keflavík voru sex ekki með öryggisbelti spennt og einn var að tala í GSM án þess að nota handfrjálsan búnað. Tveir voru stöðvaðir á Reykjanesbraut vegna hraðaksturs. Annar mældist á 116 km hraða þar sem hámarkshraði er 70 km/klst en hinn mældist á 114 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.
Þrjú minniháttar umferðaróhöpp urðu í gær. Í öllum tilfellum var bifreiðum ekið á kyrrstæðar bifreiðar, en í einu þeirra, sem átti sér stað um kl 20 í gærkvöldi, var ekið á bíl við Hátún og gerandinn stakk af án þess að gera viðvart um óhappið.
Loks var einn ökumaður kærður fyrir að aka móti rauðu ljósi er logaði á götuvita.