Þrettán vélhjólamenn stöðvaðir
Þrettán danskir vélhjólamenn eru í umsjá lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli þessa stundina og svo getur farið að fleiri bætist í hópinn. Að sögn Jóhanns R. Benediktssonar, sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, komu níu mannanna með Iceland Express frá Kaupmannahöfn og fjórir aðrir bættust við með vél Icelandair. Tvær vélar voru væntanlegar núna á fimmta tímanum en vegna mikils hliðarvinds var þeim beint til Akureyrar og Egilsstaða. Þegar veðrið verður gengið yfir fara þær til Keflavíkur. Bylgjan greinir frá þessu.
Jóhann segir að verulegur viðbúnaður sé á flugvellinum og hefur lögreglan þar fengið liðsauka. Útlendingarnir eru úr dönsku bifhjólasamtökunum Hogriders sem eru af svipuðum toga og Vítisenglar, eða Hells Angels, og Banditos. Hogriders eiga systursamtök á Norðurlöndunum og í Þýskalandi en tilefni Íslandsfararinnar var að vígja félaga í íslenska mótorhjólaklúbbnum Hrolli inn í samtökin.
Að sögn sýslumanns er jafnvel búist við enn fleiri mótorhjólamönnum til landsins. Hann sagði að unnið væri samkvæmt áhættumati Ríkislögreglustjórans um að gestirnir sköpuðu hættu á almannafriði. Að sögn Jóhanns verður tekin upplýsingaskýrsla af mönnunum og þær upplýsingar svo sendar snarlega til Útlendingastofnunar sem tekur ákvörðun um hvort að mönnunum verði hleypt inn í landið eða vísað burt. Hann segir mennina hafa hagað sér vel en reynsla manna á flugvellinum sé að það komi ekki í ljós fyrr en mönnum er vísað úr landi hvernig þeir taka svona afgreiðslu.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson og Þorgils Jónsson