Þrettán teknir fyrir hnupl
	Hælisleitendur í umsjón Útlendingastofnunar voru tíu sinnum staðnir að hnupli í nýliðnum júlímánuði. Þrettán hnuplmál komu inn á borð lögreglunnar á Suðurnesjum í mánuðinum. Lögreglan á Suðurnesjum og Útlendingastofnun funduðu sl. föstudag þar sem farið var yfir stöðu mála.
	Hnupl og reiðhjólaþjófnaðir hafa verið mikið til umræðu á samfélagsmiðlum síðustu vikur. Reiðhjól, sem tekin hafa verið ófrjálsri hendi frá heimilum í Reykjanesbæ, hafa verið að finnast við aðsetur hælisleitenda á Ásbrú.
	Skúli Jónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, sagði í samtali við Víkurfréttir að nú sé reiðhjólum sem ekki fáist skýring á eignarhaldi við gistiheimili Útlendingastofnunar á Ásbrú og komið á lögreglustöðina í Keflavík, þar sem réttmætir eigendur hjólanna geta vitjað þeirra.
	Í júlímánuði hefur verið tilkynnt um þjófnað á átta reiðhjólum til lögreglunnar á Suðurnesjum. Engin tilkynning barst um stolið reiðhjól á sama tíma í fyrra.
	Skúli sagði að af þeim þrettán hnuplmálum sem upp komu í júlí hafi tíu tengst hælisleitendum í umsjón Útlendingastofnunar. Málin hafi öll komið upp fyrrihluta júlímánaðar.
	Skúli sagði að lögreglan á Suðurnesjum hafi strax stigið fast til jarðar og komið mönnum í skilning um að hnupl og gripdeildir væru ekki liðnar.
	Ekkert hnuplmál kom síðari hluta mánaðarins. Hin þrjú hnuplmálin tengdust þjófnaði úr verslun í flugstöðinni og svo tvö önnur mál, ótengd hælisleitendum.
				
	
				

 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				