Þrettán spor eftir innbrot
Brotist var inn í tvö fyrirtæki í umdæmi Lögreglunnar á Suðurnesjum nú í vikunni. Í öðru tilvikinu var rúða fyrir ofan hurð brotin með því að kasta gangstéttarhellu í gegnum hana. Hinn óboðni gestur skreið síðan í gegnum gluggann. Svo virtist sem hann hefði skorið sig við það því mikið blóð var innandyra og farið hafði verið í sjúkrakassa á staðnum. Lögregla rakti slóð mannsins og reyndist hann hafa leitað sér læknishjálpar eftir innbrotið. Hafði þurft að sauma sár á hendi hans með 13 sporum, auk þess sem hann var særður á eyra. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann játaði verknaðinn við yfirheyrslur.