Þrengir að skólastarfi í Háaleitisskóla vegna fjölgunar nemenda
Undanfarin tvö ár hefur nemendum Háaleitisskóla á Ásbrú fjölgað úr 292 í 400. Friðþjófur Helgi Karlsson, skólastjóri Háaleitisskóla, kynnti fyrirkomulag á móttöku barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn í skólanum fyrir fræðsluráði Reykjanesbæjar á dögunum.
Friðþjófur nefndi að farið væri að þrengja að skólastarfinu vegna mikillar fjölgunar nemenda. Vísaði hann þar til beiðni sveitarfélagsins um stuðning frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til uppbyggingar sérhæfðrar kennsluaðstöðu fyrir Nýheima.
Friðþjófi er þakkað fyrir áhugaverða kynningu á því hvernig tekist er á við krefjandi aðstæður í Háaleitisskóla þar sem fjölgun nemenda hefur verið mikil. Nýheimar voru settir á laggirnar sem sérstakt móttökuúrræði haustið 2021 að frumkvæði skólans og með traustum stuðningi fræðsluskrifstofu.
Fræðsluráð styður það sem fram kom á fundi barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar þann 28. okt. sl. að stofnaður verði starfshópur sem hefur það að markmiði að styðja betur við börn og foreldra sem tala ekki íslensku sem móðurmál og geta ekki tjáð sig í skóla og samfélaginu.