Þremur vísað úr flugi vegna ölvunar
Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum þurft að hafa afskipti af þremur einstaklingum sem vísað var úr flugi vegna ölvunar. Tveir karlmenn sem áttu bókað flug til Gdansk fengu ekki að fara með vélinni af þessum sökum samkvæmt ákvörðun flugstjóra. Þeir gistu að eigin ósk á lögreglustöðinni í Keflavík.
Sá þriðji lét ófriðlega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem honum hafði verið synjað um að fara um borð í flugvél vegna ölvunar og var hann ósáttur. Hann sættist á að fá flugmiða sínum breytt og láta renna af sér.