Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þrautþjálfaður mannskapur stöðvaði miklar blæðingar
Föstudagur 2. október 2009 kl. 11:11

Þrautþjálfaður mannskapur stöðvaði miklar blæðingar

Þrautþjálfaður mannskapur um borð í björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein stöðvaði miklar blæingar úr höfði skipsstjóra björgunarskipsins eftir að skipið hafði fengið á sig brotsjó á miðjum Faxaflóa kl. 02 í nótt. Skipstjórinn komst undir læknishendur á Rifi á Snæfellsnesi fjórum tímum síðar þar sem hann var saumaður tíu spor í höfuðið. Hann er nú í koju en ætlar að taka þátt í umfangsmikilli æfingu á sjó utan við Grundarfjörð um helgina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Veðurspá fyrir daginn í dag var óhagstæð þar sem hvessa átti með morgninum. Af þeim sökum var ákveðið að fara tímanlega á stað vestur með björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein til að vera á undan veðrinu. Björgunarskipið var ekki eitt á ferð, því það hafði harðbotna björgunarbátinn Njörð Garðarsson í eftirdragi.


Stór skurður opnaðist á höfði skipstjórans

Um kl. 02 í nótt var björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein komið í slæmt sjólag á miðjum Faxaflóa og í um 4ra metra ölduhæð. Skipstjórinn á björgunarskipinu fyrirskipaði öllum um borð að óla sig niður í skipinu. Hann stóð sjálfur í hurðargætt á skipinu þegar brotsjórinn reið yfir. Höfuð hans slóst í þil og stór skurður opnaðist á höfði hans.


„Skipstjórinn missti mikið blóð en þrautþjálfaður mannskapur um borð stöðvaði blæðingarnar,“ segir Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes í samtali við Víkurfréttir. Í áhöfn Hannesar Þ. Hafstein voru nokkrir björgunarsveitarmenn með mikla menntun í skyndihjálp og þá voru einnig þrír með réttindi til að stjórna björgunarskipinu.


Njörður Garðarsson horfinn

Þegar mannskapurinn um borð hafði gert að sárum skipstjórans varð mönnum ljóst að harðbotna björgunarbáturinn, Njörður Garðarsson, hafði slitnað aftan úr Hannesi Þ. Hafstein og hafði það líklega gerst þegar skipið fékk á sig brotsjóinn. Áhöfnin var í sambandi við formann björgunarsveitarinnar í landi sem einnig hafði upplýst Vaktstöð siglinga um ástandið.


Lögð var áhersla á að koma skipstjóranum undir læknishendur á Rifi. Skipsstjórinn var með áverka á höfði og því ekki tekin nein áhætta.


Kári Viðar, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, kallaði út stjórn sveitarinnar í nótt sem er vaninn þegar óhöpp verða innan björgunarsveitar. Stóðu menn því vaktina á Holtsgötunni í Njarðvík þar til björgunarskipið var komið í höfn á Rifi kl. 06 í morgun og skipsstjórinn var kominn til læknis.


Mikið tjón finnsti björgunarbáturinn ekki

Björgunarbáturinn sem týndist í nótt heitir Njörður Garðarsson og er af Atlantic 21 - gerð. Hann var nýkominn úr umfangsmikilli klössun þar sem ýmis nýr búnaður hafði verið settur í hann. Þeirri klössun l auk á tíunda tímanum í gærkvöldi.


Landhelgisgæslan hefur sent loftfar til leitar að björgunarbátnum, enda mikil verðmæti í bátnum fyrr Björgunarsveitina Suðurnes. Finnist báturinn ekki munu tryggingabætur ekki duga til að fá sambærilegan bát að nýju og tjónið því mikið fyrir sveitina.


Kári leggur þó áherslu á að fyrir mestu sé að manntjón hafi ekki orðið í nótt þegar björgunarskipið fékk á sig brotsjóinn. Hann segir að mannskapnum hafi þó aldrei verið nein hætta búin, þar sem skip eins og Hannes Þ. Hafstein séu hönnuð til að vera í miklu verri veðrum og sjólagi.


Hann segir líka að mannskapurinn um borð hafi verið pollrólegur þrátt fyrir að um borð hafi allt farið úr hillum og útlitið eins og eftir blóðuga sprengjuárás.



Myndir: 245.is og bjsudurnes.is